Í dag er þjóðhátíðardagur Noregs, frí og margt um dýrðir þrátt fyrir rigningarsudda. Einn frídagur í maí tapast þar sem 17. maí fellur í ár saman við uppstigningardag. Þetta er töluverð blóðtaka þar sem eftir annan í hvítasunnu er næsti rauði dagur í Noregi jóladagur. Hér er engin verslunarmannahelgi. Á móti kemur að sú staða getur komið upp að uppstigningardag beri upp á 16. maí og þar með sé dagurinn eftir föstudagur 17. maí og óaðfinnanleg fjögurra daga helgi myndist Bakkusi til dýrðar. Það gerist þó ekki oft.
Við mættum í árlegt 17. maí-brunch til Sigurbjarnar og Unnar upp í Ganddal og létum eftir það bari og veitingahús Sandnes finna fyrir návist okkar. Við fengum okkur kvöldverð á indverska veitingahúsinu Delhi en lögðumst svo í víking á Megleren, einn af uppáhaldsbörunum okkar. Þar sátu Norðmenn að stífri drykkju í tilefni dagsins, margir íklæddir hefðbundnum norskum þjóðbúningi, svokölluðum bunad sem ég hef áður skrifað um hér. Ég dáist að því hvað Norðmenn leggja mikla áherslu á að drekka sig blindfulla sjálfan þjóðhátíðardaginn í stað þess að liggja í því kvöldið áður eins og Íslendingar og norpa svo um miðbæinn næfurþunnir daginn eftir með börnin, pylsur og kók engum til ánægju en flestum til ama. (MYND: Norskar konur íklæddar hefðbundnum norskum þjóðbúningi, bunad. Þetta á milli þeirra er ég.)
Við gátum ekki látið undir höfuð leggjast að koma við á okkar uppáhaldsbar, Madam Aase, sem ég fjallaði um í þessum pistli frá 2010. Þar sátu helstu lífskúnstnerar bæjarins að drykkju að vanda og fögnuðu ákaft er Íslendinga bar að garði, ‘dere snakker jo gammelnorsk’ var að vanda viðkvæðið sem ég nennti svo sem ekki að leiðrétta enn einu sinni yfir í að Íslendingar hefðu upphaflega talað indóevrópska fornnorrænu og að mestu haldið henni óbreyttri á meðan Norðmenn breyttu sinni tungu nánast yfir í engilsaxnesku og kunnu varla að skrifa annað en dönsku þar til 1850. Oft má satt kyrrt liggja. (MYND: Rósa hlýðir á sögu Terje Tveit um hús Viðlagasjóðs. Hann minnir aðeins á Norm úr Staupasteini (Cheers).)
Á Madam Aase hittum við margan ágætismanninn, þar á meðal Terje Tveit sem kom til Íslands vorið 1973 og bjó í Keflavík á meðan hann vann ásamt fjórum öðrum húsasmiðum frá Sandnes og fleiri Norðmönnum við að byggja heilt hverfi af timburhúsum þarna í nágrenninu. Þessi hús voru öll nákvæmlega eins í útliti að hans sögn og lá mikið á að koma þeim upp vegna fjölda fólks sem hefði misst heimili sín í eldgosi á einhverri eyju við sunnanvert Ísland. Terje þessi kom sem sagt að því að koma upp svokallaðri Eyjabyggð, húsum Viðlagasjóðs á Suðurnesjum sem byggð voru fyrir gosflóttamenn frá Vestmannaeyjum (sjá meðal annars þessa grein úr Tímanum 3. maí 1973). Hann mundi vel eftir aðstæðum í Keflavík og rifjaði upp húsnæðið sem þeir félagar bjuggu í og stóra bandaríska herstöð í nágrenninu þar sem vinsælt var að kaupa smyglað áfengi og sígarettur. Þessari frásögn höfðum við gaman af.
Einn vinnudagur eftir á morgun og svo reyndar helgi á bakvakt þar sem ég á vaktaviku á bryggjunni. Nú er allt vitlaust hjá Conoco og vantar fleiri kílómetra af rörum út á pallana vegna uppdælingar úr mörgum nýjum brunnum á Ekofisk-svæðinu. Engu má skeika, hver sólarhringur á norskum olíuborpalli kostar fimm milljónir norskra króna (rúmar 110 milljónir íslenskar) og borpallarnir eru margir. Maður rétt nær að fá sér í glös…