Klukkan 02:00 í nótt tók sumartími gildi í Evrópu, hér í Noregi gerist það þannig að þegar klukkan slær tvö verður hún þrjú. Ég var við dyravörslu á Hall Toll og hafði hlakkað nokkuð til kvöldsins aldrei þessu vant, hér bauðst tækifærið til að vera hinum megin borðsins og vera að vinna á vínveitingastað við klukkubreytinguna en árið 2003 var ég gestur á bar í Helsinki þegar þetta gerðist. Ég hef sagt frá þeim sáru vonbrigðum hér áður en þá var allur bekkurinn við stífa brennivínsdrykkju og taldi sig eiga nóg inni þegar klukkan sló tvö en varð þar með þrjú og barinn lokaði.
Ég varð einnig fyrir vonbrigðum nú, níu árum síðar, en þegar ég fór að spyrja vinnufélaga mína út í hvernig staðið yrði að byrjun sumartímans fékk ég einfaldlega þau svör að hann yrði hunsaður og staðurinn rekinn á vetrartíma fram að lokun. Norskir veitingamenn virðast hafa náð samkomulagi um þetta við yfirvöld til að sporna við eins klukkutíma samdrætti í áfengissölu. Kemur á óvart að það sé hægt í þessu regluríki. Eins er ég spenntur að sjá hvernig fer með laun fyrir þetta kvöld. Unnum við í raun klukkutíma lengur þótt staðinn rauntími væri sá sami? Það var alla vega einum tíma lengra liðið á morguninn þegar við komum heim.
Til að losna við þessar hugleiðingar ákvað ég að taka upp eigið tímatal og fresta sumartímanum alveg þar til ég vaknaði í dag. Þetta get ég í krafti þess að ganga ekki um með rándýrt iPhone-tækniundur sem breytir klukkunni sjálft þegar sumar- eða vetrartími hefst. Minn sumartími hófst því formlega síðdegis í dag. Hefðbundnir fylgifiskar koma svo í ljós strax á morgun. Nú verður allt í einu mun dimmara við fótaferð á morgnana en að sama skapi bjart lengur fram eftir á daginn sem er auðvitað tilgangurinn með þessu klukkuhringli.
Við erum að fara að skoða þrjár íbúðir í Sandnes á næstunni. Auglýsing í fjóra daga í Stavanger Aftenblad hafði mátuleg áhrif fyrir utan að eingöngu einn þeirra sem hringdu áttaði sig á hinu snúna orðalagi etter kl. 19. Hinir hringdu undantekningarlaust strax upp úr hádegi. Nokkrar íbúðir gátum við þegar afþakkað vegna stærðar eða verðs, nú ætlum við að nota tækifærið og fara í aðeins ódýrara húsnæði. Eftir standa þrjár, tvær sem telja má raunhæfan kost en eina sem er alveg á mörkunum, bæði lítil og dýr og í raun parhús en ekki íbúð. Kíkjum á það samt.
Þessar þrjár vistarverur eru í hverfunum Hana, Lura og Trones. Lura er næst vinnunni, Hana er næst miðbænum í Sandnes en Trones er í raun ekki nálægt neinu sérstöku. Þar er litla dýra parhúsið. Það kostar 15.000 á mánuði, Lura er á 12.000, allt nýtekið í gegn og pallur í garðinum, en Hana er á 9.000 með svölum í vitlausa átt miðað við sól en risagarði í hina áttina. Örstutt í búð, miðbæ og ræktina. Henni fylgir einnig helmingur af tvöföldum bílskúr sem er upplagt geymslupláss. Líklegt er að þessi kostur verði fyrir valinu sé íbúðin ekki undirlögð af fúa, myglu og smávöxnum einstaklingum með miklu fleiri fætur en ég. Kemur í ljós þegar við skoðum hana á morgun.