Tímamót

norturaviÞað er engum ofsögum sagt að síðustu dagar hafi fært mikil tímamót í hlað. Á föstudaginn sá ég mitt hinsta blóði drifna lamb mjakast í áttina að mér á króki sínum og lauk störfum hjá kjötframleiðandanum Nortura, hvort tveggja með trega og gleði. Starfið þarna brúaði bil sem þurfti að brúast og var auk þess býsna lærdómsríkt, ég lærði helling af pólsku og þekki nú auk þess grundvallaratriði norsks kjötiðnaðar. Þar að auki var ég orðinn góðvinur forstjórans, Vibeke Lamark, sem talar þá alþægilegustu norsku sem ég hef heyrt enda er hún að norðan. (MYND: Jú jú, gömul mynd og skítléleg frammistaða í þeim málum, veit ég vel. Við höfum bara ekki tekið neinar myndir upp á síðkastið en úr því verður bætt í Íslandsheimsókn um jólin, það er loforð.)

Á fimmtudaginn fögnuðum við hálfs árs búsetuafmæli hér í Noregi en þá voru upp á mínútu liðnir sex mánuðir síðan Flugleiðir skutluðu okkur hingað austur þriðjudaginn 11. maí. Óhætt er að segja að margt vatn hafi runnið til sjávar síðan og erum við orðin hagvanir norskir skattþegnar auk þess að hafa lært málið nokkuð vel, komið okkur þokkalega fyrir á vinnumarkaði landsins og kynnst hörðustu rónabörum Stavanger og nágrennis.

Á morgun, mánudaginn 15. nóvember, verða svo enn ein tímamótin þegar ég hef störf sem sekjsonsleder hérna í næsta húsi, á háskólasjúkrahúsi borgarinnar. Laun og allur aðbúnaður er til fyrirmyndar en eini gallinn er að í þessari stöðu mun ég ekki spóka mig í drifhvítum spítalaklæðum eins og í sumar heldur gegni ég starfinu í mínum eigin fötum sem eru ekki góð tíðindi. Fyrir utan gatslitnar nærbuxur úr Hagkaup á ég ekkert nema gallabuxur, stuttermaboli og einar handónýtar svartar jakkafatabuxur úr Dressmann sem líta út eins og fermingarbuxur Lalla Johns. Þetta verður í fyrsta sinn á norskum vinnumarkaði sem mér eru ekki úthlutuð vinnuföt og ég dauðkvíði þessu, ég verð að segja það eins og Steingrímur Hermannsson sagði svo oft.

Fyrir utan þetta allt saman stendur nú sem hæst undirbúningur fyrir veglega Íslandsheimsókn okkar dagana 20. desember til 4. janúar. Við stöndum í ströngu við að gera hrikalega skriflega áætlun yfir alla þá veitingastaði sem við þurfum að borða á og allt það fólk sem við þurfum að drekka brennivín með á örstuttum tveimur vikum og er ljóst að það mun ekki renna af okkur eina mínútu þetta tímabil. Eins og bankarnir munum við þurfa að afskrifa heilan helling en mér sýnist nú samt að við munum ná að sinna öllum sem máli skipta…líklegt er hins vegar að þetta muni kosta lifrarígræðslu á næsta ári en það verður þá bara að hafa það. Ísland er landið og djöfull ætla ég að liggja á Bæjarins bestu og KFC þessar tvær vikur. Enginn veit hvað átt hefur..!!!

Athugasemdir

athugasemdir