Maður getur nú bara ekki sagt annað (jú, og gleðilegt ár auðvitað, lesendur nær og fjær þar sem hér fer fyrsti pistill ársins í loftið). Það var virkilega ánægjulegt að verða vitni að því á tólfta tímanum í morgun að Ísland sé enn lýðræði, svona að einhverju leyti. Ég hefði gefið mikið fyrir að sjá svipinn á forkólfum vinstristjórnarinnar þegar forsetinn gerði það eina vitræna í stöðunni – að leyfa íslensku þjóðinni loksins að segja eitthvað. Mér sýnist að þetta muni hvort eð er ekki breyta miklu um skuldastöðuna, við munum þurfa að borga þessa vitleysu á einn eða annan hátt en það er prýðileg vakning fyrir Steingrím og Jóhönnu að fá ekki að æða áfram í sínum einkasamningum við Breta og Hollendinga.
Þegar þjóðin hefur svo fellt þessa blessuðu fyrirvara í þjóðaratkvæðagreiðslu, vonandi sem fyrst, koma væntanlega alþingiskosningar í kjölfarið og þá er ljóst hverjir fara með hreinan þingmeirihluta: Besti flokkur Jóns Gnarr sem nú mun væntanlega ryðjast fram í næstu kosningabaráttu. Þangað fer mitt atkvæði, það eru hreinar línur, og mér býður í grun að ég tali fyrir munn þó nokkurra kjósenda sem eru búnir að fá sig fullsadda af þessu fjórflokkakerfi (Hreyfingin telst ekki með hér nema þá sem stærstu vonbrigðin sem nýr þingflokkur) þar sem hver flokkur fyrir sig keppist um að svekkja þjóðina sem mest þegar hann er í stjórn.
Ég tek ofan fyrir Ólafi Ragnari og viðurkenni það fúslega (viðurkenndi það líka í viðtali við hollenska RTL-sjónvarpið í morgun) að þessu átti ég ekki von á. Ég er algjörlega sekur um það að ég var nánast harður á því að hann skrifaði undir með bros á vör eftir sýndarumhugsunarfrest. Sko kallinn.
Bretar og Hollendingar eru æfir. Ég skil það ekki. Það er alveg ljóst að þeir fá sína ég-veit-ekki-hvað-mörg-hundruð milljarða, þeir þurfa bara að sýna örlítið meiri samningsvilja. Menn verða að átta sig á því að þjóðin opnar ekki budduna alveg orðalaust eftir einkaflipp Landsbankamanna.
Það verður ljúft að yfirgefa þetta sker í vor og horfa á þessa vitleysu úr fjarlægð (og smám saman gleyma henni).