Þjóðfélagið stöðvast…í tvo tíma

VinnustodvunNorskt þjóðfélag fer á hliðina í tvær klukkustundir í dag, frá klukkan 14 til 16 að staðartíma, þegar nokkur stærstu launþegasamtök landsins, LO, Unio og YS, standa fyrir tveggja klukkustunda vinnustöðvun á 120 stöðum í landinu til að mótmæla fyrirhuguðum breytingum á vinnulöggjöf landsins. Bara hér í Rogaland er gert ráð fyrir að 40.000 manns leggi niður störf og reiknast Aftenbladet til að um sé að ræða stærstu mótmæli í Noregi um tæplega tveggja áratuga skeið. (MYND: Løchen, Per/NTB Scanpix.)

Lestar-, flug- og strætisvagnasamgöngur stöðvast að stórum hluta auk þess sem fjöldi verslana og leikskóla lokar þessar tvær klukkustundir með tilheyrandi glundroða sem ekki er örgrannt um að maður muni finna eitthvað fyrir á leið heim frá vinnu í dag.

Vinnulöggjöf þessi, arbeidsmiljøloven, hefur að miklu leyti staðið óbreytt frá setningu árið 1977 þótt minni háttar breytingar hafi verið gerðar gegnum árin. Höfuðdrættirnir í því sem nú stendur til að breyta er að skylda til að auglýsa innan eins árs stöður, sem ráðið hefur verið tímabundið í, verður lögð á vinnuveitendur auk þess sem fleiri yfirvinnustundir verða heimilaðar og samningsfrelsi launþega og vinnuveitanda um vinnu á sunnudögum rýmkað.

Hjá þjóð sem vinnur 37,5 stunda vinnuviku og berst nú með klóm og kjafti við að ná henni niður í 35 tíma tákna þessar breytingar ekkert annað en kollsteypingu allra norskra gilda sem snúa að jafnvægi milli vinnu- og frítíma, nái þær fram að ganga. Að þurfa mögulega að vinna meira er með því skelfilegra sem hægt er að bjóða dæmigerðum norskum launþega. Reyndar læðist gjarnan að mér hvort óskagildi þjóðarinnar væri jafnvel að vinna ekki neitt gegn fullum launum.

Ljóst er, miðað við þann gríðarlega iðnað sem þrífst í Noregi, að margháttaðra breytinga á vinnulöggjöfinni er þörf og það fyrir löngu. Mörg ákvæði arbeidsmiljøloven eru algjörlega úr takti við til dæmis olíuiðnað þar sem hver mínúta skiptir máli og klukkustund í rekstri borpalls kostar tugi milljóna króna. Til marks um þessa þörf á breytingum er meðal annars að nú eru mörg stærri fyrirtæki og birgjar í olíuiðnaðinum að vakna upp við það að hinar geysiflóknu og viðamiklu öryggiskröfur, sem krefjast skriflegs framkvæmdaleyfis fyrir ekki merkilegri athöfn en að skipta um ljósaperu, eru farnar að setja framgangi sjálfrar vinnunnar stólinn fyrir dyrnar og stuðla að meiri sóun en gagni, sjá nýlega umfjöllun Norska ríkisútvarpsins.

Athugasemdir

athugasemdir