Ég varð fyrir athyglisverðri uppljómun í skólanum í dag. Námsefni helgarinnar fjallar um efnafræði, eiginleika og notagildi svokallaðra brunnvökva, hvers kyns vökva sem notaðir eru við borun og frágang brunna og svo við sjálfa vinnsluna úr brunninum. Brá fyrirlesari helgarinnar þríhyrningnum, sem myndin til hliðar sýnir, upp á töflu og útskýrði fyrir okkur þann einfaldleika sem því fylgdi að nota hann til að finna eitt óþekkt gildi í samhenginu masse, volum og egenvekt.
Þessi afkimi vísindanna er ekki í neinu sérstöku uppáhaldi hjá mér, eins og ég hef fjallað um hér áður, en þarna kipptist ég við í óþægilegu sæti mínu á 3. hæðinni í Rica Forum-hótelinu (sem að auki var stútfullt af keppendum á HM í kvensokkí (kvennaíshokkí) sem nú fer fram í Stavanger). Geisli horfinnar fortíðar lýsti upp huga minn. Löngu dauð og grafin raungreinadeild heilans rumskaði nefnilega óvænt og kannaðist við sambærilegan þríhyrning sem Ögmundur Gunnarsson raungreinakennari birti ungri og misgáfulegri hjörð sinni í eðlisfræðitíma í 9. bekk í Garðaskóla veturinn 1988 – ’89. Slík voru áhrifin að ég nefndi þetta í glósum mínum svo sem sjá má.
Sá djöfulskapur situr einmitt í mér ævilangt fyrir þær sakir að ég gat engan veginn munað hvað átti að vera hvar í þríhyrningnum massi – eðlismassi – rúmmál fyrr en ég setti það í samhengi við orðið MERI (mínus i) og gat þar með fest mér í takmörkuðum heilabrautunum raunvísindamegin í hausnum að með því að teikna upp þríhyrninginn og skrifa svo MER í hann hefði ég öðlast eilífðarlykil að reiknigátu massa, eðlismassa og rúmmáls. Ég held að þetta hafi svo ekki einu sinni komið á prófinu um jólin og vegna hins fræga og langvinna kennaraverkfalls vorið 1989 urðu mín próf í eðlisfræði og öðrum grunnskólafögum ekki fleiri á ævinni svo ég fékk aldrei að sýna Ögmundi leikni mína með þríhyrninginn en hef munað helvítið æ síðan (þríhyrninginn það er…og Ögmund reyndar líka). Svo birtist hann mér þarna í dag eins og uppgrafin afturganga úr þjóðsögum Jóns Árnasonar. Ég hafði nú gaman af því samt.
Páskarnir hafa aldeilis dregið dilk á eftir sér. Ég komst aftur í gang í líkamsræktinni á miðvikudaginn en er allur einhvern veginn úr lagi genginn. Þetta er tímanna tákn, drykkjan er minnsta málið en stórar átveislur, sem færanlegar kirkjuhátíðir eru gjarnan, hafa rosalegar afleiðingar. Mér finnst ég vera eins og jólatré í laginu eftir þetta súkkulaði- og kjötmaraþon sem hér fór fram. Mér líður eins og ég breikki niður á við ef einhver skilur mig. Ég reyndi að bera vandamál mín á torg fyrir kvendýr heimilisins eftir skóla hjá okkur í dag og lýsti því yfir að mér litist ekkert á þennan peruvöxt sem væri farinn að einkenna mig. Hún leit þá glottandi á mig og sagði: “Nei nei, þú ert alls ekki með peruvöxt. Þú þykknar að ofan.”
Á maður að hlæja eða gráta?