Oft hafa menn spurt mig hvort ég spili virkilega ekki golf og jafnan rekið upp stór augu þegar ég segist hafa önnur áhugamál en að labba um með kylfupoka á bakinu klæddur eins og fífl. Reyndar eru þetta oft sömu aðilar og spyrja hvort ég sé ekki á Facebook, það mál hef ég þegar rætt í eldri pistli. (MYND: Golfklúbbur Reykjavíkur prófar nýja völlinn á Kollafirði. Prentist myndin vel má sjá grilla í Villa Vill í miðju pútti efst til vinstri.)
Nú gæti þetta hins vegar farið að breytast, golfmálið það er að segja. Það er orðið ljóst að þarna liggja seðlarnir. Borgarstjóri lætur sig ekki muna um að moka milljónum í einhvern golfvöll til uppbyggingar þar, svo þetta er sennilega framtíðarsportið. Hún hefur sennilega óttast að peningarnir færu að skemmast í geymslum borgarinnar líkt og hjá hinum alræmda kókaínbaróni George Jung sem átti stútfulla risavillu af dollaraseðlum og voru þeir elstu teknir að morkna neðst í stöflunum. Þannig er þetta líklega í ráðhúsi Reykjavíkur. Eins gott að bregða skjótt við.
Vilhjálmur Vilhjálmsson (er ég einn um að finnast maðurinn fullkominn tvífari Roy Orbison heitins?) ver þessa fjárveitingu svo með því að þetta nýtist öllu atvinnulausa fólkinu sem nú geti legið í golfi með peningailm í nösum. Það eru merkileg rök þar sem verðskrá golfvallarins er enn óbreytt og kostar árskortið 75.000 kall hvað sem líður 230 milljóna króna góðgerðarstyrk borgarinnar. Þetta er væntanlega í takt við enn ein óskiljanleg ummæli félagsmálaráðherra í gær þar sem hann var inntur álits á því að mörg hundruð manns stæðu í röð eftir matargjöfum hvern miðvikudag. Þá kom þessi perla: ‘Það er pólitískur vilji til að setja neysluviðmið.’
Eru haldin námskeið í frösum fyrir stjórnmálamenn einhvers staðar?