The Devil Went Down to Sandnes…

sandnes nightLokið er sennilega mestu spritthelgi í sögu Noregs og er það mál manna að sjálfur Haraldur hárfagri hefði grátið af hræðslu hefði hann verið hér og lifað þessa helför sem hann hefði þó sennilega ekki gert þar sem 1162 ár er töluvert yfir meðalævilíkum Norðmanna ef marka má tölur Statistisk sentralbyrå. (MYND: Föstudagskvöldið. Á meðan allt lék í lyndi.)

Þessi hrunadans, sem gekk undir vinnuheitinu Sandnes Night Fever, fólst í því að Brynjar Már Ottósson (alias Bin Laden, Binary, dr. Mancini og margt fleira) var sendur hingað í útskriftarferð úr einstaklega vel heppnuðu tannsmíðanámi í kóngsins Kaupinhafn en sendandi var heitkona hans, Aldís Brynjólfsdóttir frá Hvammstanga en nú einnig búsett í höfn kaupmanna og við sama nám og Brynjar var að ljúka summa cum laude.

Framkvæmdin á þessu var frekar einföld. Ég sótti Brynjar á Stavanger International Airport (sem þó er í Sola) klukkan 16:02 á föstudag og ók með hann inn í Sandnes þar sem við fengum okkur beint í glös. Reyndar hafði Brynjar hafið drykkju sína töluvert löngu fyrir hádegi og þannig haldið uppi merkjum Íslands auk þess að vera þegar stöðvaður af tollgæslu flugvallarins við komu til landsins og inntur svara við spurningum á borð við hve lengi hann hygðist dvelja í Noregi og hver þessi Atli væri sem hann segðist vera að heimsækja.sandnes nightii

Föstudagskvöldið hófst á India Tandoori Restaurant sem ber höfuð og herðar yfir aðra veitingastaði Sandnes og eftir vel heppnaða og mjög sterka súpu og nokkra gin og tónik þar var haldin ölteiti hér að Gangeren 66 og varð gestkvæmt. Ágætt kvöld. (MYND: Laugardagskvöldið. Gossip bar. Frá vinstri: Brynjar Már Ottósson, Gestur Ben Guðmundsson, hmmm ég sennilega, Rósa Lind Björnsdóttir, Axel Benjamín Árnason.)

Laugardagurinn hófst með bíltúr um nágrennið sem endaði í ríkinu í Kilden í Stavanger. Var svo hellt aðeins upp á í Gangeren en um kvöldmatarleytið haldið til höfuðstaðar svæðisins, Stavanger City, og þar sest að kvöldverði og drykkju á Harbour Café, ágætri uppbót borgarinnar fyrir vöntun á Hard Rock Café. Dreif þar ýmsa menn að, marga með íslenskt ríkisfang, og var haldið á barinn Gossip þar sem undirritaður stóð gjarnan sem dyravörður fyrr á þessu ári. Gerðust menn nú brúnvölir mjög og teyguðu mungátið óspart og ekki var þar töluð vitleysan en látið fjúka í kviðlingum, dróttkvæðum og öðrum dýrum kveðskap. Að lokum var haldið til lokrekkju.

Er sunnudagurinn heilsaði hinum almenna guðhrædda Norðmanni með klukknahljóm og öðrum leiðindum var fyrsta greinanlega hljóðið í Gangeren 66 opnunarhviss bjórdósar. Áður en leið á löngu hafði hinn þögli minnihluti samfélagsins sem á sér önnur bænahús en heilaga almenna kirkju fundið hinn breiða veg til Madam Aase Pub við Langgate, Mekka mjaðarins, en ekki var hægt annað en sýna tannsmiðnum þessa hlýlegu Sódómu bæjarfélagsins. Þaðan var haldið með járnbraut til Stavanger og best geymda leyndarmál norskrar barmenningar, Munken, heimsóttur en svo sem er alkunna býðst þar tveir fyrir einn af vodka og bjór alla daga nema laugardaga. Bannað er með norskum lögum að auglýsa þetta en það er á allra vitorði. Þarna stóð ég líka sem dyravörður í vor. Mun skemmtilegra þó að vera gestur. (MYND: Sunnudagskvöldið. Barþjónar Stafangurs voru með á nótunum rétt eins og gamli Iðnaðarbankinn. Þetta er hún á Munken, æ ég man aldrei hvað hún heitir.)sandnes nightiii

Tilboð staðarins var nýtt óspart og Sigurbjörn og Unnur létu sjá sig ásamt allra þjóða kvikindum en Munken minnir oft meira á Sameinuðu þjóðirnar en bar. Mjög skemmtileg stemmning þarna og óhætt að mæla með Munknum sem fjölþjóðlegum grautarpotti fólks með áhuga á ódýru áfengi. Lokahnykkurinn var tekinn á annáluðum sunnudagstónleikum Ovenpaa sem er staður í anda Gauks á Stöng eins og hann var frá 1983 og þar til honum var breytt í mun stærri stað (vann sem dyravörður á báðum, 1995 og 2002).

Að lokum endaði helgin eins og allar góðar helgar…á mánudagsmorgni. Tvö sprittlegin hjörtu óku Brynjari út á völl og héldu svo til starfa næstu átta tíma á meðan hann svaf yfir CSI heima í Kaupmannahöfn (ef marka má nýjustu tölur frá Aldísi). Gæðum heimsins er einfaldlega misskipt. Takk fyrir heimsóknina Binni…og Aldís. This shit makes my day.

Athugasemdir

athugasemdir