Þetta er ekki auglýsing frá norska nýnasistaflokknum…

seytjandi mai…þetta er ég heima í garði á þjóðhátíðardegi Norðmanna. Veðrið leikur við okkur hér á suðvesturströndinni á þjóðhátíðinni, veit ekki hvernig ástandið er í Ósló eða fyrir norðan. Við erum eina fólkið í lengjunni sem erum ekki að flagga og mér finnst það ómögulegt. En við eigum engan norskan fána og felum okkur bara á bak við að vera útlendingar. Reynið að kæra okkur!!!

Ég var í hressandi viðtali í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun hjá Frey, Guðmundi og Þórði tæknimanni. Við ræddum um norsku þjóðhátíðina og lífið hér í landinu. Áhugasamir geta hlýtt á þvættinginn í mér hér. Ég laug þó engu.

Ekki var framlag Gísla Kristjánssonar, RÚV-fréttaritara í Ósló, síðra en hann ræddi þar um skrúðgöngur, hátíðarhöld og hluti sem ekki má gera grín að í Noregi en innan vébanda hins síðasttalda er af nógu að taka, undir það skal ég rita með blóði mínu hvenær sem er.

Freyr Eyjólfsson er glettilegur útvarpsmaður finnst mér, bjartleitur og léttur í efnistökum (ég segi þetta ekki bara af því að hann er alltaf að taka viðtöl við mig!). Eins hefur hann verið í tónlist meðal annars með honum Hlyni, Ceres 4, sem ég lyfti lóðum með í World Class í tæpa tvo áratugi. Heimurinn fer ört minnkandi ég get svo svarið það.

Athugasemdir

athugasemdir