Teningunum er kastað

5. septFrá og með deginum í dag erum við stoltir eigendur Mercedes Benz CLK 200, árgerðar 1999 með 193.000 km að baki. Við lönduðum stykkinu á 49.000 krónur hjá Egeland Auto hér í Sandnes en það er innan þeirra marka (50.000) sem lagt var upp með að verja í bifreið. (MYND: Bílafloti heimilisins, Benz Sprinter og Benz CLK, sá fyrrnefndi reyndar bara fjórðu hverja viku.)

Til að tryggja okkur þetta glæsilega eintak sem lítur út eins og nýtt að innan sem utan undirrituðum við skilyrtan kaupsamning með sólahrings gildistíma í gær en skilyrðið var að Axel Árnason bifvélavirki, frændi Rósu, legði blessun sína yfir kaupin eftir almenna yfirferð auk þjöppumælingar á verkstæði sínu í Stavanger. Þessi rannsókn öll fór fram núna í kvöld og leiddi í ljós vél í toppstandi fyrir utan leka ventlalokspakkningu og þörf á nýjum kertum. Annað var í góðu standi og ég verð að játa að ég hef ekki séð eins hreina og snyrtilega vél í nokkrum bíl, síst 13 ára gömlum.

Punkturinn yfir i-ið í þessum kjarakaupum eru nýleg vetrardekk á álfelgum sem fylgja með en það er býsna góð kjarabót. Umfelgun á hjólbarðaverkstæðum í Noregi er ekki ókeypis frekar en annað hér. Þar á meðal er bensín en leiðbeinandi lítraverð á 95 oktana bensíni hjá Shell á Stavanger-svæðinu er núna 15,42 NOK sem gerir litlar 326,4 íslenskar krónur á gengi dagsins. Lagt var því upp með það markmið að vél nýrrar bifreiðar yrði ekki umfram 2,0 lítra að slagrými en sú vél, sem gefur 136 hestöfl (eins og gamla 2,3 Benz-vélin) er yfrið nóg í þennan bíl og aksturseiginleikar stórskemmtilegir. Eins og ég hef lýst yfir á Facebook mun ég ekki fá mér díselbíl. Aldrei.

Það er því ljóst að löngum morgun- og síðdegistúrum með strætisvögnum Kolumbus a/s er lokið, vonandi til frambúðar. Rósa er á bakvaktarviku og því með fyrirtækisbíl svo umskiptin eru mikil, af strætó á tvo bíla í einu vetfangi. Við hljótum að stuðla að mikilli hnattrænni hlýnun fram á mánudag.

Tíminn og vesenið sem við þetta sparast er á mörkum hins ómælanlega eins og ég greindi frá í nýlegum pistli. Almannasamgöngukerfið hér á svæðinu virkar en getur verið býsna tafsamt ef unnið er í öðru sveitarfélagi en búið er í…auk nokkurra annarra tilfella. Samt eru vegalengdirnar ekki miklar en sú furðulega árátta Norðmanna að hafa flestar stofnbrautir (nema E39) eina akrein í hvora átt hægir á öllum ferðalögum. Það má nefnilega ekki nota olíusjóðinn í vegagerð eða heilbrigðiskerfi, þetta er OLÍUsjóður og ekkert annað!

Ég er sem sagt mjög feginn að vera loksins kominn á bíl hérna. Þetta er minn fjórði Benz síðan árið 2000 og vonandi að hann nýtist okkur eitthvað fram á fimmtugsaldurinn. Hann virðist eiga nóg eftir.

Annars er lífið gott og ég á bakvakt þessa viku eins og frúin. Eini munurinn er að ég fæ ekki fyrirtækisbíl en ég þarf heldur í raun ekki að fara í nein útköll eins og hún getur þurft að gera, bara vinna yfirvinnu niðri á bryggju að loknum almennum vinnudegi sem er mjög hressandi. Til stendur að tendra í fyrsta skipti upp í arninum hérna í Gangeren um þarnæstu helgi, okkar næstu fríhelgi. Þá byrjar haustþemað, rauðvín og arineldur, en fyrst þarf að gera eitthvað við sjónvarpið, það stendur ofan á arninum. Sennilega neyðumst við til að fá okkur ódýran flatskjá úr Elkjøp og festa hann upp á vegg, öðru plássi en veggplássi er ekki til að dreifa og reyndar varla því.

Athugasemdir

athugasemdir