Þeir eru fáir sem orða hlutina skýrar en ég…

sprenging…en Agli Helgasyni tekst það svo sannarlega í þessum stutta en hnitmiðaða pistli sem hittir alveg gjörsamlega í miðjuna:

Skilanefndarmenn eru hin nýja yfirstétt á Íslandi. Ríkisstjórnin horfir aðgerðarlaus á spilinguna sem dafnar í kringum hrundu bankana og þykist ekki geta gert neitt. Ráðamenn segjast vera agndofa og hneykslaðir, en hafa í raun gefið endurreisn viðskiptalífsins frá sér. Hún er að komast í hendurnar á fámennum klíkum. Þetta er ekki beinlínis sú leið sem maður hefði talið að vinstri stjórn færi, en einhvern veginn virðist hún lömuð af ákvarðanafælni – kerfið er sterkara en hún.

Einn, tveir og bingó! Það er eins og hvert annað áramótaskaup að hlusta á Gylfa Magnússon ‘fagráðherra’ tjá sig um laun skilanefndarfólks. Hér stefnir allt svoleiðis á hálfum ljóshraða í sama farið og áður að einn fjórði væri nóg. Það er nákvæmlega kórrétt að þessi svokallaða endurreisn viðskiptalífsins er í höndum örfárra einstaklinga – margra hverra þeirra sömu og yljuðu sér við kjötkatlana í aðdraganda hrunsins.

Eins og reiðin kraumi ekki nægilega í fólki (mér dugir að kveikja á tölvunni og fara inn á nánast hvaða innlenda síðu sem er, það er allt vitlaust!) stefnir í enn eina seinkun hrunaskýrslu Páls og Tryggva. Manni býður í grun að skýrslan komi að lokum aldrei fyrir augu almennings eða svo rækilega ritskoðuð að hún verði nánast efnisyfirlitið eitt. Skýrsluhöfundar og sennilega fleiri en þeir eru hræddir við að hér fari allt á annan endann með slíkum tilþrifum að búsáhaldabyltingin fræga verði eins og grímuklædd börn að kría út nammi á öskudag.

Ég hugsa að það sé ekki fjarri lagi.

Athugasemdir

athugasemdir