Það hlýtur að vera frekar sérstakt að komast að því 22 ára gamall að maður er sonur móður sinnar og afa og það sé hrein lygi og blekkingavefur að systir manns sé virkilega systir heldur í raun móðir. Þetta mátti Theodore Robert Bundy, mun betur þekktur sem Ted Bundy, reyna á eigin skinni. Geðflækjur hans leiddu hann að lokum í rafmagnsstólinn en þá hafði hann auk annars lokið háskólaprófi í sálfræði, starfað sem ráðgjafi á sjálfsmorðssímavakt og myrt á fjórða tug kvenna.
Ted Bundy er án efa einn best menntaði raðmorðingi sem sagan hefur þekkt enda algengt að menntun sé nokkuð ábótavant innan stéttarinnar. Bundy var enginn slefandi þanghaus á borð við Jeffrey Dahmer eða Ed Gain. Hann var ungur sálfræðingur sem enn fremur lagði stund á laganám og starfaði sem kosningastjóri repúblikanans og forsetaframbjóðandans Nelsons Rockefeller í Seattle árið 1968. Án efa má leiða að því líkur að þeir Bundy og raðmorðinginn og brennuvargurinn David Berkowitz, einnig þekktur sem Son of Sam, hafi verið hvað ‘eðlilegastir’ amerískra raðmorðingja, eða að minnsta kosti gengið best að koma sér áfram í samfélaginu og vera virkir og viti bornir þegnar þess…fyrir utan auðvitað að hafa verið haldnir sjúklegum áhuga á ofbeldistengdu klámi og dauða auk þess sem Berkowitz tilheyrði söfnuði djöfladýrkenda og trúði því staðfastlega að hundur hans væri haldinn illum djöflaanda sem skipaði honum að drepa.
Skildi aldrei félagslega hegðun
Ted Bundy skýrði sjálfur frá því við réttarhöldin, eftir að hann var loks handtekinn, að hann hefði aldrei verið fær um að skilja félagslega hegðun sem þátttakandi, eingöngu sem áhorfandi. Sálfræðinámið færði hann í sanninn um hina fínþráðóttari vefi mannlegs og félagslegs eðlis en það var eins og hann gæti aðeins nálgast samfélagið sem fræðimaður…og samviskulaus morðingi. Sem unglingur las Bundy nánast ekkert nema glæpasögur og þegar í gagnfræðaskóla var hann haldinn ólæknandi stelsýki sem hann fékk útrás fyrir í stórmörkuðum. Hann var einnig mikill áhugamaður um skíðaiðkun og eftir að honum hafði tekist að stela sér öllum þeim búnaði sem þurfti til að stunda íþróttina lagði hann á sig mikla vinnu við að falsa aðgöngumiða að skíðasvæði í Vermont þar sem hann bjó fram á unglingsár.
Hlutirnir fóru að verða athyglisverðir þegar Bundy útskrifaðist frá Woodrow Wilson-gagnfræðaskólanum og hlaut skólastyrk frá Háskólanum í Pudget Sound. Þar nam hann sálfræði og austurlensk fræði en flutti sig svo í miðju kafi yfir í hinn virta Washington-háskóla í Seattle. Þar má segja að fjörið hafi byrjað.
Samhliða náminu í Seattle vann Bundy fyrir sér með tvennum, en mjög ólíkum, hætti. Hann raðaði vörum í poka fyrir viðskiptavini Safeway-stórmarkaðarins á daginn en var á sjálfsmorðssímavakt hjá Seattle’s Suicide Hotline á kvöldin. Við hlið hans þar sat Ann Rule, síðar lögreglukona í Seattle og enn þá síðar rithöfundur, og þar var komin manneskjan sem færði í letur fyrstu rituðu heimildir um Ted Bundy fyrir utan lögregluskýrslur. Rule skrifaði bókina The Stranger Beside Me um Bundy og glæpaferil hans árið 1980 og þótti varpa nokkuð glöggu ljósi á sálfræðinginn morðóða sem ýmist bjargaði fólki frá sjálfsmorði eða myrti það sjálfur.
Fatlafól á Volkswagen
Bundy hóf laganám við sinn gamla skóla í Pudget Sound haustið 1973 en þá var virkilega tekið að halla undan fæti og vorið 1974 fóru konur að hverfa sporlaust í Washington og nágrenni. Dæmigerð aðferð Bundy við að næla í fórnarlömb sín var að aka um á gamalli Volkswagen Bjöllu og þykjast vera fatlaður. Hann setti á sig fatla og bað ungar konur um að vinsamlegast aðstoða sig við að bera bækur eða eitthvað annað inn í bílinn. Hann sló þær svo í rot, dröslaði þeim inn í bílinn og ók af vettvangi.
Enn þann dag í dag er ekki fullljóst hve mörg fórnarlömb Teds Bundy urðu. Hann ýmist játaði eða dró til baka játningar við yfirheyrslur og réttarhöld og morðslóðin náði yfir mörg ríki, að minnsta kosti Utah, Colorado og Idaho auk Washington. Hann var handtekinn nálægt Salt Lake City í Utah 16. ágúst 1975 fyrir að sinna ekki stöðvunarmerkjum lögreglu. Lögreglan fann ísöxi, skíðagrímu, kúbein og fleira í Bjöllu Teds og taldi hann innbrotsþjóf. Litlu munaði að honum yrði sleppt eftir yfirheyrslu en rannsóknarlögreglumaðurinn Jerry Thompson náði að tengja lýsingu á Bjöllunni við óútskýrt hvarf háskólanema nokkrum mánuðum fyrr. Þá hófst ferli sem lauk með því að Theodore Robert Bundy var tekinn af lífi með því að 2.000 volta straumi var hleypt gegnum líkama hans í tvær mínútur klukkan 07:06 að morgni 24. janúar 1989 í ríkisfangelsinu í Flórída. Hann var úrskurðaður látinn klukkan 07:16.
Kvöldið fyrir aftökuna veitti Bundy frægt sjónvarpsviðtal við James Dobson þar sem hann lét fleygustu orðin á ferli sínum falla: You are going to kill me, and that will protect society from me. But out there are many, many more people who are addicted to pornography, and you are doing nothing about that.