Þegar æðruleysið er eina haldreipið

glasÞað voru þung og erfið spor að koma heim á laugardagskvöldið eftir harðsvíraðan dag á beredskapsvakt á kæjanum án þess að loka deginum með glasi af ísköldu hvítvíni…eða jafnvel einni belju af því eins og meira er hefð fyrir.

Þetta er í fyrsta skiptið síðan ég byrjaði á vaktinni í fyrravor sem þessi sólargeisli eftir allt að 16 klukkustunda puð við losun og lestun birgðaflutningaskipa hefur ekki fengið að verma sálu mína að vaktaviku lokinni og ég verð að játa að tilfinningin var öðruvísi. Eins gott sennilega að venja sig við slík málalok því þetta verður minn félagslegi raunveruleiki þar til að lokinni vaktaviku í apríl. Töluvert meiri vegalengd en sporin tólf hjá AA myndi ég segja.

Ég er annars kominn að þeim tímamótum í lífi mínu að fagna nú tíunda árlega þurrkatímabilinu en hið fyrsta var haldið á öndverðu ári 2004 við grát og gnístran tanna og var sex vikur. Árin hafa liðið, tímarnir breyst og mennirnir með og nú held ég út heila þrjá mánuði ár eftir ár. Það er rétt svo að hinir níu dugi svo til að vinna þessi ósköp upp.

Við erum við það að komast sæmilega í gang við lestur námsbóka eftir ægilegt kaldstart 4. janúar síðastliðinn. Þetta verður djöfullegra með hverju árinu sem líður og sennilega skynsamlegast að halda sig við smærri námskeið hér eftir á borð við fluguhnýtingar, bókband eða útsaum. Rósa er beinlínis í próflestri enda situr hún þessa dagana námskeiðið stroppe- og anhukerkurs (G11), hinn annálaða grunn undir öll fræði er lúta að lyftingu og flutningi þungra hluta og búnaði þar til. Próf á morgun. Ég sit henni til samlætis yfir bortækni inni í eldhúsi og finnst það enn sem komið er athyglisverðasti hluti brunntækninámsins þótt jarðfræðin hafi átt sínar heillandi hliðar.

Ljósið við enda ganganna, hin hroðalega helför til Kaupmannahafnar um páskana, er slokknað. Rósa lendir á vakt alla páskavikuna en tókst þó að skipta út laugardeginum og páskadegi svo við getum nú haldið sómasamlega upp á 39 ára afmælið mitt en í fyrsta sinn síðan 2002 ber afmælið mitt upp á laugardag. Það finnst mér alltaf sérstaklega hátíðlegt þar sem ég fæddist einmitt á laugardegi á sínum tíma.

Mikill agi mun þó einkenna vorið 2013 og próflestur tekur eiginlega við strax eftir páska. Ég verð þurr að mestu en þessar drykkjur eru þó meitlaðar í stein:

30. mars: 39 ára afmæli og upphaf lokaniðurtalningar að hrikalegum veisluhöldum vorið 2014
31. mars: Hefðbundin páskadrykkja við lestur Passíusálma og lambakjötsát
13. apríl: Kalt hvítvín eftir helgarvakt, loksins!!!
27. apríl: Kosningadrykkja. Fylgst með þingkosningum á Íslandi úr þægilegri fjarlægð…kýs ekki!
18. maí: Sameinuð prófloka-, hvítasunnuhelgar- og þriggja ára búsetu í Noregi-drykkja

Eins og sést er þetta allhófleg dagskrá og vel skorin við nögl, það má svona segja að maður rétt þefi af tappa einu sinni í mánuði ef ég tek meðaltal tímabilsins janúar til maí. Full ástæða er til að fagna hvítasunnuhelginni í ár þar sem nú kemur upp allsérstakur helgidagabandormur hér í Noregi. Málum er þannig háttað, vegna þess hve snemma páskar og samræmdar færanlegar kirkjuhátíðir eru á ferð, að nú ber 17. maí, þjóðhátíðardag Norðmanna, upp á föstudaginn fyrir hvítasunnuhelgi og verður úr ákaflega sjaldgæf fjögurra daga helgi. Reyndar er eins gott að njóta þeirrar hvíldar vel þar sem mjög ójöfn dreifing helgidaga hér í landinu gerir það að verkum að næsti rauði dagur á eftir öðrum í hvítasunnu er jóladagur!

Athugasemdir

athugasemdir