Þar rauður loginn brann

egoghilmarHilmar Veigar Pétursson er æskuvinur minn úr Garðabænum og einn sérstakasti náungi sem ég hef kynnst um mína daga. Fyrir utan að vera rauðhærðari en andskotinn hafði Hilmar, sem í dag er tölvunarfræðingur og forstjóri CCP, tileinkað sér forritunarmálið BASIC, sem Sinclair ZX Spectrum-leikjatölvan var einna þekktust fyrir, löngu fyrir fermingu. (MYND: Við Hilmar á góðri stund í sumarbústað í Skorradal í nóvember 1994. Síða hárið var draumurinn, eins og Bubbi söng.)

Ég átti mína spretti yfir BASIC, maður sat og sló inn fleiri blaðsíður af kóða upp úr bók sem fylgdi tölvunni til þess eins að sjá hana teikna strik þvert yfir skjáinn eða telja upp að tíu þúsund. Komma eða punktur á röngum stað gaf skilaboðin  SYNTAX ERROR. Fólki af minni kynslóð eru væntanlega í fersku minni skipanir á borð við GOTO, INPUT, PRINT og END. Sumar þeirra vitja mín enn í draumum mínum.

Hvað Hilmar snertir hefur hann greinilega flutt snilldarlegt erindi á Sólon í fyrradag um framtíð íslensku krónunnar og stöðu íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja í vonlitlu íslensku umhverfi. Enginn íslenskur fjölmiðill nema Eyjan virðist hafa tekið erindi Hilmars upp á sína arma sem er hrein skömm þar sem sá rauði kemst þarna býsna vel að orði og skilur kjarnann frá hisminu eins og honum einum er lagið. Hilmar var ekki mikill ræðumaður á okkar yngri árum í Garðabænum en hann hefur aldeilis blómstrað með tímanum enda mjög eftirsóttur fyrirlesari á ráðstefnum tölvuleikjaframleiðenda auk þess sem hann er tilbeðinn eins og Dalai Lama á hinni rammíslensku EVE Fanfest haust hvert.

Hilmar Veigar er enn eitt dæmið um það hverju garðbæskur uppvöxtur getur skilað af sér og auk þess manna skemmtnastur í samkvæmum eins og einhver sagði um Símon Bjarnason Dalaskáld.

Athugasemdir

athugasemdir