Óvænt föstudagsfrí birtist á himni í dag. Okkur gekk svo vel í verklega hluta lyftaraprófsins að við vorum útskrifuð kl. 14:00 í dag og send heim í snemmbúið helgarfrí. Losnuðum þar með við seinni daginn. Auk þess kom í ljós að ég var dúx í skriflega prófinu. Það er orðið verulega langt síðan ég hef dúxað í einhverju. Sennilega gerðist það síðast í latínu í 4. bekk í MR fyrir sléttum 20 árum. (MYND: Verklega prófið var tekið á fjóra Jungheinrich-lyftara, svipaða þessum. Hann tilheyrir flokkinum T4 en námskeiðið veitir þó réttindi til að starfa á T1 – T5 alls staðar innan ESB/EES.)
Þetta var reyndar stórskemmtilegt námskeið (mæli með því ef þið eruð stödd á götu í Stavanger og hafið ekkert betra að gera). Leiðbeinandi var Willy Steinskog, eigandi og einn af fjórum starfsmönnum SKT Kran og Truckskole (truck þýðir lyftari á norsku, ekki trukkur). Hann strompreykir, hefur réttindi til að kenna á nánast allt á hjólum og spilar róandi tónlist í frímínútum í bóklega hlutanum. Eins er hann mikill áhugamaður um Ísland og þreyttist ekki á að spyrja okkur út í hvernig lífið gengi fyrir sig þar, hvað sígarettur kostuðu og fleira. Góður kennari og mannkostamaður mikill.
Hvað sem því líður var unaður að komast í helgarfrí snemma á fimmtudegi svo við skelltum okkur á hrikalega æfingu í Elixia og fórum svo beint heim að grilla í garðinum enda sól og blíða enn einn daginn í röð. Núna sit ég hér úttroðinn af svínakjöti og einhverjum krydduðum pylsum og er að sötra þennan fína Jelzin-vodka. Af hverju er lífið ekki alltaf svona?
Næsta vika er síðasta heila vinnuvikan mín á Háskólasjúkrahúsinu í Stavanger. Ég ætla að njóta hennar alveg sérstaklega. Svo skellur haustið á með nýju starfi, arineldi, Bailey’s í kaffi, rökkri og rómantík. Haustið er einstakur tími hérna syðst í Noregi (kannski nyrst líka, ég veit ekkert um það).