Tár, bros og bankahrun (ekki eftir Þorgrím Þráinsson samt)

dagbokÉg dró dagbókina mína frá 2008 niður úr hillu áðan. Tilefnið var ómerkilegt, við sátum hérna og skeggræddum hvort við hefðum farið til Akureyrar sumarið 2008 og heimsótt þar meðal annars Snorra, bróður Rósu. Ég var alveg viss um að við hefðum farið einu sinni norður á 420 SEL Benzinum sem ég keypti á eBay í febrúar 2008 og flutti inn frá Kaliforníu. Ég þykist muna eftir mér á 200 kílómetra hraða í Öxnadalnum á honum en 2008 var eina sumarið sem ég átti þennan kostagrip þar sem ég seldi hann í apríl 2009.

Ég les dagbækurnar mínar nánast aldrei, slæ stundum upp í þeim þegar ég þarf að finna út einhverjar dagsetningar svo óyggjandi sé. Alltaf er það þó jafnmikil upplifun að líta inn um þennan glugga til fortíðarinnar og svo festist ég auðvitað gjörsamlega í einhverju nostalgísku maníukasti. Hérna eru nokkrar gullfærslur frá 2008, hrunárinu mikla sem mér finnst núna óraveg í burtu. Þetta eru samt bara þrjú ár. Þarna var ég starfandi blaðamaður hjá 365. Eingöngu eru birt brot úr færslum hvers dags.

Þriðjudagur 18. mars
Vinna 9 – 17. Blaðamannafundur í Stjórnarráðinu þar sem Geir H. Haarde kvað ríkisstjórnina ekki myndu aðhafast neitt vegna gengishrunsins í gær en einstaklingar og fyrirtæki skyldu þó ‘fara varlega’.

Miðvikudagur 23. apríl (síðasti vetrardagur)
Þjóðfélagið á annan endann vegna mótmæla vörubílstjóra og óeirða við Rauðavatn. Mikill viðbúnaður lögreglu og fjöldaslagsmál. Lára Ómars missteig sig leiðinlega í beinni með ummælum um eggjakast og sagði stöðu sinni á Stöð 2 upp í kjölfarið. Partý hjá Sigmundi Erni og frú um kvöldið, mjög fínt. Ásgeir og Jóna Dís sóttu okkur þangað og tóku á brennivíninu með okkur fram eftir nóttu.

Fimmtudagur 29. maí
Suðurlandsskjálfti, 6,2 á Richter, klukkan 15:45. Fannst mjög vel á fréttastofunni. Skaftahlíðin nötraði. Las fréttir á Bylgjunni klukkan 16:00 eftir að hafa barið saman fyrstu frétt um skjálftann á ellefu mínútum. Tók 26 viðtöl á næstu tveimur klukkutímum, þar á meðal við starfsfólk sjúkrahússins á Selfossi sem var rýmt en þar komu stórar sprungur í veggi gömlu byggingarinnar. Leit við hjá SÁÁ eftir vinnu í sól og blíðu og sótti hundrað álfa sem við ætlum að selja í Mosó. Reyklaus í átta ár!

Mánudagur 29. september
Ríkið tekur yfir 75% hlut í Glitni vegna gjaldþrots bankans.

Þriðjudagur 7. október
Örlagaríkt símtal Árna Mathiesen fjármálaráðherra við Alistair Darling, breskan starfsbróður sinn, hratt af stað hörðum viðbrögðum í Bretlandi vegna Icesave-ævintýris Landsbankamanna.

Ótrúlegt að rifja þessa daga upp núna, þremur árum seinna. Í dag eru til dæmis þrjú ár frá Suðurlandsskjálftanum 2008 og þar með einmitt liðin 11 ár síðan ég drap í síðustu rettunni. Álfasalan fyrir SÁÁ varð hvorki fugl né fiskur þrátt fyrir góðar fyrirætlanir. Við seldum einn álf, keyptum hann sjálf af okkur, en svo var farið rakleiðis í ríkið og náð í hvítvín enda veðrið þennan dag alveg svakalegt og miklu skynsamlegra að sitja með kalt hvítvín á pallinum en að ganga í hús með SÁÁ-álfinn. Við skiluðum samt hinum 99 til SÁÁ ásamt ágóðanum af þessum eina sem seldist.

Athugasemdir

athugasemdir