Ég verð að byrja á að þakka fyrir þann aragrúa afmæliskveðja sem borist hafa hérna gegnum síðuna og eins í tölvupósti. Það mætti halda að maður ætti vini…og ættingja meira að segja. Hryllilega ómerkilegur afmælisdagur samt þannig séð, 37 ár, það er einhvern veginn ekki neitt. Hvort tveggja frekar leiðinleg tala og engin ný réttindi sem fylgja þessu. Síðustu réttindi sem ég fékk aldurs vegna var kjörgengi til embættis forseta Íslands á 35 ára afmælisdaginn fyrir tveimur árum. Fram undan er svo bara hrein eyðimörk í aldurstengdum réttindum þar til réttur til eftirlauna verður virkur. Það er á mörkunum að þetta teljist uppörvandi.
Í gær varð sá stóri atburður að við tókum þátt í annarri þjóðaratkvæðagreiðslu ævinnar er við mæltum okkur mót við hana Ingrid Schøpp, ræðismann Íslands í Stavanger (eða Sandnes reyndar), og kusum hjá henni. Við kusum auðvitað gegn nýjustu Icesave-lögunum en það var nú meira af fræðilegum áhuga en einhverri illkvittni. Ég er mjög forvitinn að sjá hvað gerist ef þjóðin fellir þessi lög líka. Í okkar fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu fylgdi hollenska sjónvarpið okkur á kjörstað í Mosfellsbænum en það var rólegra yfir þessu í gær, engir fjölmiðlar og svo röltum við bara sjálf með kjörseðlana á pósthúsið og sendum þá sýslumanninum í Reykjavík. Ekki datt mér í hug að þetta væri svona óformlegt.
Ingrid ræðismaður er fjallhress manneskja. Hún vinnur í Sandnes Sparebank og er mikil áhugamanneskja um Ísland og Íslendinga (hver er það ekki?:). Hún gerðist þó ekki ræðismaður af hugsjón heldur þannig að tengdapabbi hennar var ræðismaður en embættið erfist víst gjarnan. Þegar kom að því að eiginmaður Ingridar skyldi axla þetta ábyrgðarþrungna starf kom í ljós að hann stundaði einhvern rekstur þar sem hagsmunatengsl stönguðust á við ræðismennskuna svo hún skellti sér bara á djobbið og segist aldrei hafa séð eftir því (jæja OK, hún sagði það svo sem ekki en hún væri varla að þessu ef hún hataði það).
Ég er að fara í gráðun í taekwondo á morgun og óttast að þar verði slett á mig skinninu eins og það kallaðist til forna þegar illa uppfrætt barn var fermt. Ég treysti mér, þrátt fyrir háan aldur, til að koma mér í gegnum líkamlega hlutann en kunnátta mín í kóresku er langt í frá fullnægjandi og ég er að fara að vinna í kvöld og get þar með ekki legið yfir bókunum kvöldið fyrir próf sem hefur nú oft rétt bjargað mér fyrir horn á fleiri en einu skólastigi og fleiri en tveimur. Spyrjum því að leikslokum en af þessu verða nánari frásagnir hér á atlisteinn.is á morgun og jafnvel myndir.