Ég er hjartanlega sammála Ásgeiri Jónssyni, blaðamanni DV, um efni pistils hans Fáviska eða lélegur árangur? í helgarblaðinu. Þar fjallar hann um val á íþróttamanni ársins og reifar umræður um það hvernig á því standi að Gunnar Nelson, keppnismaður á heimsmælikvarða í brasilísku jiu jitsu og bardaga með frjálsri aðferð, komi ekki til greina en sami maðurinn sé hins vegar sæmdur titlinum í fjórða skipti. (MYND: Gunnar á dýnunni/mjolnir.is.)
Rökin gegn því að Gunnar komi til greina eru þau að félag hans, Mjölnir, er ekki aðili að Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ). Það er því góð og gild spurning sem Ásgeir teflir fram: Af hverju er þá titillinn ekki íþróttamaður ÍSÍ frekar en íþróttamaður ársins fyrst langt í frá allir íþróttamenn koma til greina?
Ég hef hundrað sinnum bent á þetta í ótal umræðum, ýmist sem þáverandi formaður Þórshamars og stjórnarmaður í Karatesambandi Íslands eða sem blaðamaður og prófarkalesari á Morgunblaðinu hér áður fyrr þegar ritstjórnarstefnu íþróttafrétta bar á góma: Það virðist ekkert þykja markvert sem íþróttaefni nema það snúist um að elta bolta og val íþróttamanns ársins virðist sannarlega draga dám af því.
Árið 2001 (frekar en 2000) eignuðumst við Norðurlandameistara í tae kwon do, Björn Þorleif Þorleifsson. Ég man ekki til þess að nokkur íslenskur fjölmiðill hafi séð ástæðu til þess að nefna þetta (erlendir fjölmiðlar hömpuðu því mun meira). Íslenskum íþróttafréttamönnum var meira í mun að þekja síðu eftir síðu af umfjöllun um handboltalandsliðið sem var að tapa sínum milljónasta leik á einhverju móti og flestir hefðu getað séð fyrir í ljósi sögunnar.
Ég er algjörlega sammála Ásgeiri á DV, við eigum dúndurgóða menn sem eru að gera hrikalega hluti á sterkum mótum erlendis. Menn eins og Gunnar Nelson sem hefur raðað utan á sig gulli og silfri á fjölda alþjóðlegra móta. Íþróttafréttamenn eiga að sjá sóma sinn í því að horfa út fyrir rammann og líta til allra íslenskra afreksmanna í íþróttum. Síðasti íþróttamaður ársins sem ekki kom úr boltagreinum var Örn Arnarson sundkappi (2001) og sá síðasti sem kom úr bardagaíþróttum var Bjarni Friðriksson (1990). Það skýtur skökku við miðað við árangur íslenskra bardagalistamanna að öllum öðrum ólöstuðum.