Ég lofaði aldeilis upp í allar ermar og skálmar þegar ég sagðist í pistli hér einhvern tímann í júní ætla að koma með reglulegar fréttir úr matjurtagarðinum sem Mosfellsbær leigði okkur í vor. Einn pistill um málið birtist þegar nýbúið var að setja niður tólf kíló af útsæði, gulrætur og radísur og nú lítur sá næsti dagsins ljós, 1. september. (MYND: Þessu kipptum við undan nokkrum grösum, allar þrjár tegundir. Mikið af smælki en hvílíkt bragð!)
Ég á sem sagt ekki von á neinum Pulitzer-verðlaunum fyrir efnismiklar fréttaskýringar af vexti og þróun kartöflugrasa. Það var einfaldlega ekki um neitt að tala. Eftir að hafa úðað hænsnaskít yfir allan garðinn í nafni lífrænnar matjurtaræktar fórum við nokkrar ferðir og vökvuðum, grösin uxu eins og búast mátti við en aldrei kom neitt fram sem talist getur forsíðuefni.
Fyrr en kannski í gær þegar við skelltum okkur upp eftir og kipptum í tilraunaskyni upp nokkrum grösum. Útkoman var hreint stórfengleg. Til að rifja upp atburði vorsins settum við niður þrjár tegundir af útsæði, premier, gullauga og rauðar. Við náðum í nokkur eintök af hverri tegund í gær, skelltum í pott og gæddum okkur á með dýrindis eggjaköku, smjöri og salti.
Ég ætla ekki að vera neitt að níða skóinn af Þykkvabæjarbændum en skemmst er frá því að segja að þetta er algjört sælgæti. Næfurþunnt hýðið er vart greinanlegt, áferðin slétt og bragðið alveg stórfenglegt. Næst verður þessi snilld reynd með glænýrri ýsu og farið í huganum áratugi aftur í tímann. Sá réttur stenst nefnilega flestan samanburð þótt maður hafi ekki komið nálægt þessu sem barn öðruvísi en að þekja það þykkum hjúpi af Vals tómatsósu og reyna að hugsa um eitthvað annað rétt meðan á borðhaldi stóð.
Radísurnar voru líka fínar, stórar og massaðar. Ég hugsa að ég hafi ekki kennt bragðs af radísu síðan haustið 1984 þegar ég veiddi mína fyrstu framleiðslu upp úr skólagörðunum í Garðabæ, tíu ára gamall. Áhuginn var ekki meiri en svo að ég gaf ömmu gömlu alla uppskeruna, kartöflur, kál og radísur, og vildi sem minnst af þessu vita. Ó, þér unglinga fjöld og Íslands fullorðnu synir…
Hér er sem sagt óhikað mælt með því að lesendur taki sig til næsta vor og geri tilraunir með matjurtarækt hafi þeir aðgang að skika einhvers staðar. Þetta er skammarlega einfalt og árangurinn framar væntingum (mínum alla vega).