Svona upplifði ég brjósklosuppskurð

Ég á að fara í skyrtuna öfuga og hneppa henni á bakinu, athöfn sem tók töluvert lengri tíma en sturtan og að lokum lét ég nægja að hneppa tveimur hnöppum. Enginn hló, ekki svo ég heyrði.
ager 002
Daginn áður hafði ég mætt í undirbúning fyrir aðgerðina sem fólst einkum í viðtölum við ýmsa fagaðila. Erna Hlöðversdóttir hjúkrunarfræðingur tók á móti mér, indæl kona með breitt bros. Við Erna þekkjumst síðan ég var skorinn í febrúar. Þarna fyllti ég út ótal spurningalista og svaraði spurningum lækna og sænsks hjúkrunarfræðings með mjög góða nærveru. Allar þær rannsóknir sem gera þarf á manneskju áður en óhætt þykir að reka í hana hníf á skurðarborði komu mér í hreinskilni sagt á óvart.

Dormicum og propofol
En áfram með aðgerðardaginn sjálfan. Ég er háttaður niður í rúm á B6 og fljótlega kemur geðþekk hjúkrunarkona og gefur mér benzódíazepínlyfið dormicum sem á að hjálpa mér að slaka á. Fyrir var ég gríðarlega afslappaður svo ég finn engin áhrif. Stemmningin á Landspítalanum í Fossvogi er nefnilega þannig að þú slakar gjörsamlega á um leið og þessar elskur bjóða þér góðan daginn.

Fljótlega er ég sóttur inn á stofu og mér ekið í rúminu upp á skurðdeild. Það hlýtur að vera hinn endanlegi draumur hvers manns að vera ekið milli stóratburða lífsins í rúmi. Ég finn að ég er í góðum höndum – höndum sem mega sætta sig við að taka við lúsarlaunum um hver mánaðamót eftir margra ára setu á háskólabekk og neyðast til að sitja undir yfirvofandi verkföllum og yfirvinnubönnum vegna kjara sem eru engan veginn viðunandi. Nokkuð sem er stjórnvöldum okkar hvort tveggja til skammar og vansa.

Kona býður mér góðan dag. Hún segist heita Bergljót og vera svæfingahjúkrunarfræðingur og fer að líma utan í mig snúrur. Það er fínt. Andrúmsloftið á skurðdeildinni er skopi blandið. ‘Þú ætlar þó ekki að láta hana þessa stinga í þig nál?!’ segir ein brosandi út að eyrum og það er hlegið. Svo birtist Þórður svæfingalæknir sem í þessari aðgerð hefur það aukahlutverk að handleika myndavélina. Það gerir hann eins og atvinnumaður svo sem greina má af þeim myndum sem fylgja greininni.

Bergljót lítur kankvís í augu mér og ég treysti henni eins vel og ég get treyst manneskju sem stendur yfir mér með fjórar sprautur í annarri hendinni og súrefnisgrímu í hinni. Svæfingalyfið propofol fer nú sem leiftrandi bál um æðar mér og það síðasta sem ég minnist, þegar Bergljót leggur súrefnisgrímuna yfir vit mín og spyr hvort ég finni enn ekki neitt, er að ég finn ekki neitt.
ager 007
Af svefnguðum
Það virðist ekki líða nema nákvæmlega ein sekúnda þar til ég opna augun á allt öðrum stað. Þar heilsar mér nýr hjúkrunarfræðingur, svipmikil valkyrja sem ég man ómögulega, og kannski skiljanlega, hvað heitir en er ekki síðri en annað starfsfólk sjúkrahússins fyrir þær sakir. Hún tjáir mér að aðgerðin hafi gengið eins og í sögu og í ríki hennar muni ég dvelja þar til líffærum mínum sé treyst til að halda mér gangandi án stöðugs eftirlits. Ég er uppvakningur. Mest er þó um vert að þarna er rólegheitaandrúmsloft og æpandi taugin í hægri fætinum, sem ég hef átt svo mikil samskipti við undanfarinn mánuð, steinþegir. Í stað hennar berast dálitlir verkir frá glænýju skurðsári á mjóbakinu en það er allt í lagi. Hér þarf ekki að bryðja parkódín forte eins og hversdags. Hér má svindla og panta gæðavökvann morfín rétt eins og ég væri að biðja um kaffi latte niðri á Kaffitári. Það er spari.

Þjáningar, verðbólga og vaxtagreiðslur allar hverfa sem dögg fyrir sólu. En svefnguðinn Morfeus minnir á sig – vélrænn lífvörður sem tengdur er við mig tekur að pípa við raust. Valkyrjan kemur aðvífandi og biður mig vinsamlegast að fara að anda á ný. Ég hrekk upp af bleika skýinu og tek eftir því að ég er hættur að anda – þó alveg fyrirhafnarlaust. Ég bið hana innilega velvirðingar á þessu andleysi í mér og reyni að einbeita mér að því að tæma og fylla lungun á víxl. Það tekur glettilega á þótt ég sé tiltölulega vanur og hafi gert það frá fæðingu. Það er bara eitthvert óttalegt letistuð á mér.ager 012

Fimmstirnt hótel
Fljótlega er mér ekið í rúminu niður á B6 á ný. Er það tilviljun að þeir skíra þessa deild í höfuðið á vítamíni? Þarna ligg ég milli svefns og vöku og les eina og eina blaðsíðu í skáldsögu eftir Einar Kárason sem ég fékk að láni á bókasafni sjúkrahússins. Einnig spjalla ég við Herbert frá Selfossi sem liggur í næsta rúmi, viðræðugóðan náunga sem segir mér frá því hvernig hann upplifði jarðskjálftann í vor. Mér er boðið að dvelja yfir nótt en ég á konu heima sem kemur og sækir mig og gerir allt fyrir mig. En dvölin á Landspítalanum verður mér ógleymanleg. Betri þjónustu hef ég ekki fengið á neinu hóteli í heiminum og hef ég þó ferðast víða.

Athugasemdir

athugasemdir