Svona fór um sjóferð þá

hafEftir sex vikna frekar erfiða umhugsun komst ég að niðurstöðu í síðustu viku og framkvæmdi hana án frekari tafa fimmtudaginn 28. nóvember: Bakkaði út úr starfinu hjá Rowan Drilling sem ég greindi frá hér um daginn. Ástæðan er ekki flókin og byggist á einfaldri stærðfræði þótt stærðfræði hafi aldrei verið mín sterka hlið.

Um það leyti sem ég fór í viðtal hjá Rowan fékk ég ákaflega myndarlega kauphækkun hjá ConocoPhillips. Þetta gat ég aðeins túlkað á einn veg þótt yfirmenn mínir þar hefðu mælt svo með mér við Rowan að ég hélt hreinlega að þeir vildu gjarnan losna við mig. Eftir talnayfirlegu komst ég að þeirri óumflýjanlegu niðurstöðu að þrátt fyrir starf lagerstjóra á olíuborpalli og aukavinnu hjá CP í landvistinni yrði munurinn eftir skatt samanborið við núverandi kjör of lítilvægur til að vera þess virði að dveljast úti á ballarhafi fjóra mánuði á ári. Svo ég ákvað bara að sleppa því.

Þar með telst ég sennilega vera kominn í framtíðarstarfið. Þar sem yfrið nóg verður að gera hjá núverandi vinnuveitanda næstu 40 ár sé ég enga ástæðu til að vera neitt að ómaka mig við að leita að grænna grasi einhvers staðar auk þess sem mötuneytið er þess virði að deyja fyrir líkt og ítrekað hefur komið fram hjá mér hér og í verulega mettum stöðuuppfærslum á Facebook.

Nú er spáð einu mesta óveðri í sögu Noregs næstu tvo sólarhringa. Það er þegar hafið í fylkinu Troms, þar sem rafmagn fór af 10.000 heimilum samtímis í gær, og nú bíða íbúar Stavanger-svæðisins spenntir eftir því hvort hótanir yr.no gangi eftir hér. Þessi ósköp eiga að ná út á Ekofisk-svæðið líka sem táknar að birgðasiglingar munu leggjast niður verði af. Enn fremur þýðir það mikla sprengingu í siglingum þegar meintu veðri slotar, sem sagt um komandi helgi. Hér er þó allt með kyrrum kjörum enn þá en um þrjúleytið í dag fékk ég þó að heyra lengsta samfellda þrumugný sem mér hefur enn borist til eyrna. Drunurnar ætluðu hreinlega ekki að hætta.

Eins og venjulega fer nú í hönd tími fitu og ofáts. Jólahlaðborðin hrannast óðfluga upp, konfektkassastraumurinn frá viðskiptavinum hefst í vinnunni og mörkin milli ráðs og óráðs verða hægt og bítandi óskýrari þar til þau hverfa að lokum alveg síðustu viku mánaðarins. Drykkja, matgræðgi og samviska sem þolir einhvern veginn alveg ítrekuð skróp á æfingum með rökunum “Æ what the hell, það eru að koma jól”. Í kjölfarið fylgir svo venjulegt tímabil iðrunar og yfirbótar eftir áramótin. Fögur fyrirheit, líkamsrækt og áfengisbindindi…vitandi að allt fer nákvæmlega sömu leið er líða tekur að veturnóttum ársins 2014. Den tid den sorg, segja þeir.

Athugasemdir

athugasemdir