Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli númer S-1069/2009, sem kveðinn var upp í gær, var athyglisverð lesning. Þar er fjallað um mann sem lögreglan varð eitthvað þreytt á og ók með út á Granda og skildi eftir þar. Málið fjallaði um meint ofbeldi eins lögregluþjónanna, sem ákærður var og Pétur Guðgeirsson héraðsdómari sýknaði í dóminum í gær. Verjandi var fyrrum skólasystir mín, Herdís Hallmarsdóttir, og hefur væntanlega gegnt starfi sínu af kostgæfni. (MYND: Dauðinn lætur dynja/dómsins miklu gígju/bráðum brennir Flosi/Bergþórshvol að nýju. -Davíð Stefánsson)
Sú var tíðin að dómar íslenskra dómstóla voru ritaðir og settir fram á miklu gullaldarmáli, góðri og formlegri íslensku, jafnvel svo að þar komu fyrir setningar sem kveiktu bros þótt málin fjölluðu um háalvarlega hluti, ‘vitnið kvaðst hafa drukkið nokkur glös af áfengisblöndu, eigi gat það þó greint hve mörg…’ og annað vel embættað orðalag man ég glöggt án þess að þurfa að slá upp í dómasafni. Innsláttar- og stafsetningarvillum man ég ekki eftir í eldri dómum. Þar var vandað til verka. Jafnvel svo mjög að það læddist að mér að dómstólar landsins væru hinsta vígi málvísi og hreintungustefnu.
Í téðum dómi héraðsdóms frá því í gær má lesa þessa klausu framarlega í dómnum:
Önnur skýrsla var tekin af ákærða 28. ágúst sl. við sömu aðstæður og áður er lýst. Var hann þá spurður nánar út í tökin sem hann hafði á manninum á bílgólfinu. Sagðist hann þá hafa sett hnéð á bakið á manninum og haldið höfði hans föstu með hinu hnénu. Jafnframt var lesinn fyrir hann úrdráttur úr framburði hans sem reyndar getur ekki talist vera nákvæmur. Var honum sagt að framburður hans hefði verið borinn undir Aðalstein Bernharðsson þjálfara í lögregluskólanum í lögreglutökum.
Það er stórmerkilegt ef lögregla landsins er farin að stunda það að taka skýrslur af ákærðum mönnum og draga svo úr því sem þar er borið við áður en framburðurinn í skýrslunni er kynntur ákærða eða öðrum hlutaðeigandi. Hér er auðvitað á ferðinni sá útbreiddi misskilningur að orðin úrdráttur og útdráttur séu eitt og sama fyrirbærið. Himinn og haf skilur þó að.
Úrdráttur er stílbragð í textaritun eða daglegu talmáli og táknar einfaldlega andstæðu við ýkjur, það er að segja verið er að draga úr einhverju sem haldið hefur verið fram. Ef einhver nefndi að Suðurlandsskjálftinn í maí 2008 hefði haft lítil áhrif í byggðarlögum á Suðurlandi væri það klár úrdráttur. Á sama hátt væru það ýkjur að segja að fjöldi manns hafi stórslasast í skjálftanum.
Útdráttur er á hinn bóginn stytt efnisleg úttekt á innihaldi einhvers tiltekins texta eða orðræðu þar sem meginefnið kemur fram en ekki allur frumtextinn. Í dómasafni Hæstaréttar má finna stutta samantekt hvers dómsmáls á undan heildartexta dómsins. Það er dæmigerður útdráttur úr lengri texta og einmitt fyrirbærið sem skrifari dómsins í máli S-1069/2009 nefnir ranglega úrdrátt en af því orðalagi mætti skilja að ákærði hefði breytt framburðinum og gert hlut sinn í málinu eða einhverjar athafnir sínar lítilvægari en efni stóðu til. Svona er nú það.