Svíarígur

svarSvíar eru býsna fjölmennir hér í Noregi og eru skýringar þeirra þjóðflutninga í einfaldari kantinum, atvinnuástand er mun betra í Noregi, laun hærri, tungumálið svipað og stutt að fara. Algeng íþrótt Svía, sem búa nálægt hinum 1.630 kílómetra löngu landamærum ríkjanna, er að vinna og þiggja laun Noregsmegin en versla Svíþjóðarmegin því vöruverð er almennt mun lægra í Svíþjóð en Noregi, stundum svo háum fjárhæðum munar. (MYND: Lúmskur áróður, snúinn úr fyrirsögnum dagblaða, hefur ítrekað ratað á dularfullan hátt upp á veggi kaffistofunnar. Svíar hafa mig grunaðan en geta ekkert sannað.)

Þessi lýðfræðilega þróun teygir sig inn á minn vinnustað eins og aðra og nýleg ráðning eins Svíans til gerir það að verkum að Ísland missti stöðu sína jafnfætis Svíum í 2. – 3. sætinu sem næstfjölmennasta þjóðarbrotið á röravellinum hjá ConocoPhillips og hrundi alfarið niður í 3. sætið þar sem við Hilmar Þór Karlsson dúsum nú tveir á meðan þrír djöflar frá Gautaborg og nágrenni stæra sig af því að ganga næst sjálfum Norðmönnum í mannfjölda á svæðinu. Fulltrúi Eritreu var reyndar til staðar fram í janúar en hætti þá og settist á skólabekk við að nema harðsnúin olíufræði.

Þessi þrískipta menningarblanda í rörunum, sem er fámenn deild innan CP, hefur eins og gefur að skilja orðið kveikja rógburðar, rígs, þjóðrembings og ýmissa skota og glettinna athugasemda í kaffitímum jafnt sem við störf. Nokkur samstaða er milli Íslands og Noregs um að úthúða Svíum og heyrist upphrópunin jävla svenskere gjarnan í kaffitímum jafnt sem við störf og einstaka sinnum jafnvel gegnum talstöðvar sem notaðar eru á svæðinu sem er mikið að flatarmáli og menn stundum staddir víða.

Um daginn átti vörubílstjóri nokkur í stökustu vandræðum með að bakka bifreið sinni með tengivagni upp að krananum hjá okkur. Um það bil er fjórða tilraunin var að fara í vaskinn gall í kranamanninum um talstöðina að þarna hlyti nú Svíi að vera undir stýri og varð almennur hlátur á svæðinu. Bílstjóragreyið reyndist svo Norðmaður.
ikea-logo
Svíarnir taka þessu með jafnaðargeði og eru vanir því að vera eins konar boxpúði allrar Skandinavíu. Er annað hægt með þeirra broslega tungumál, kjötbollur, munntóbak, sítt að aftan og urmul hallærislegra vörumerkja á borð við IKEA, Husqvarna og Göteborgskex að ógleymdum ABBA sem eru nánast feimnismál. Absolut vodka er það eina sem Svíar hafa sent frá sér að viti…OK, Läkerol sleppur líka. Mér er minnisstætt frá námsdvölinni í Helsinki 2003 þegar heimsmeistaramótinu í ísknattleik var að ljúka og hnífjöfn og spennandi viðureign Kanadamanna og Svía stóð yfir. Þá héldu Finnar hiklaust með Kanada sem einn maður frekar en að styðja nágranna sína Svía, það þótti alveg síðasta sort.

Kjötbolluæturnar í IKEA-rúmunum eiga í vök að verjast undan föstum skotum Íslendinga og Norðmanna enda auðvelt skotmark þessa dagana með blöðin full af kóngi sínum sem virðist kunna best við sig á nektarbúllum hingað og þangað.

Ég hef reynt að útskýra fyrir þessum þremenningum sem vinna með mér að Íslendingar kunni þeim litlar þakkir fyrir samskiptin gegnum aldirnar. Þeir hafi byrjað á að senda okkur sænskan draug, Glám, sem í lifanda lífi var vinnumaður að Þórhallastöðum í Forsæludal í Húnaþingi og loks endanlega kveðinn niður af Gretti Ásmundarsyni eftir mikla glímu, og mörgum árum seinna reynt að hefna þeirra ófara með nýrri óvætt, handboltamanninum Staffan Olsson sem um árabil gerði íslenska handboltalandsliðinu lífið leitt af síst minni ástríðu en fyrirrennari hans, draugurinn. Þessi tíðindi koma flatt upp á þá sænsku enda hafa þeir ekki lesið Grettis sögu auk þess sem enginn þeirra var fæddur þegar ‘Faxi’ gerði strandhögg sín á Íslandi.

Athugasemdir

athugasemdir