Helgin byrjaði á allt öðrum nótum en friðsömum. Síðustu tvær klukkustundirnar í vinnunni á föstudaginn fóru í að skanna endalausan bunka af pappírum, senda tölvupóst út um allt, hnýta lausa enda hægri og vinstri og að lokum setja upp hið annálaða en kuldalega sjálfvirka svar Outlook um að ég sé því miður ekki viðlátinn fyrr en mánudaginn 29. apríl, þangað til vinsamlegast éti viðtakendur póstsins það sem frýs utandyra í kulda og plagi hina eða þessa aðra nafngreinda einstaklinga með heimskulegum vandamálum sínum þar til mér þóknast að snúa aftur.
Með öðrum orðum…mér kemur þetta ekkert við því ég er í orlofi, eins og segir næstum orðrétt í þekktu íslensku dægurlagi.
Það orlof er þó ekki alveg þetta dæmigerða letilíf-á-ströndinni-með-tonn-af-brennivíni-orlof heldur svokallaður riggerkurs hjá Rogaland Kranskole með öllu því ferskasta sem Einar Tjosavik og félagar þar á bæ hafa upp á að bjóða frá klukkan 08 til 17 alla fimm virku dagana í næstu viku. Huggulegt ekki satt? En svona er þetta nú bara og þetta er eitt af þungavigtarnámskeiðunum í olíubransanum ef maður ætlar að láta taka sig í meðallagi alvarlega svo ég kyngi þessu eins og matskeið af rakvélablöðum.
Yfirstandandi helgi markar annars töluverð tímamót í lífi okkar hjóna en klukkan 14:33 í dag gengum við út í sólskinið úr síðustu kennslustundinni í brønnteknikk-náminu sem hefur haft ískyggilega mikil ítök í lífi okkar 18 klukkustundir aðra hverja helgi síðan 4. janúar. Það gerir 144 tíma í allt og er stórt lóð á vogarskál þess að eftir riggerkúrsinn í næstu viku verð ég búinn að sitja næstum því 250 klukkustundir á námskeiðum það sem af er þessu ári. Maður drekkur þá að minnsta kosti ekki brennivín á meðan.
Eina ljónið í veginum áður en formleg útskrift er í höfn eru fjögur skrifleg próf í maí, þrjú fjögurra tíma og eitt fimm tíma, samtals tæpur sólarhringur við prófborðið sem er náttúrulega bara eins og dropi í tímans glas…eða það reyni ég að telja mér trú um núna þegar ég stend frammi fyrir því að eyða öllum þeim tíma sólarhringsins, sem ég er ekki sofandi eða í vinnunni, í að lesa fyrir fræði þessi. Þetta geri ég sjálfviljugur auk þess að greiða fyrir þetta fjögurra mánaða námskeið töluvert margfalt meira en ég greiddi fyrir sjö ár í Háskóla Íslands á sínum tíma. Peningar sem ég gæti hafa eytt í brennivín og fjárhættuspil. Hvað er að mér?
Á föstudaginn fengum við starfsmannastjóra Maersk Drilling í Stavanger í heimsókn hjá okkur. Þetta er stórfyrirtæki í eigu enn stærra fyrirtækis, hins danska A.P. Møller – Mærsk Gruppen, en ætla má að Maersk Drilling hafi um þriggja prósenta heimsmarkaðshlutdeild í olíu- og gasborunum á hafi úti miðað við 2012. Meðal annars eru þeir verktaki með tvo borpalla hjá mínum núverandi vinnustað og sennilega von á fjölgun þar fyrir 2015.
Vegna stóraukinna umsvifa í olíuborunum við Noregsstrendur þarf Maersk Drilling að bæta við sig 550 starfsmönnum á borpalla sína á næstu tveimur árum og þykir æskilegt að sem flestir umsækjenda hafi lokið námi í brønnteknikk. Starfsmannastjórinn lauk svo máli sínu með því að gefa okkur upp raunverulega netfangið fyrir starfsumsóknir ásamt leiðbeiningum um hvernig umsóknin ætti að líta út um leið og hann ljóstraði því upp að umsóknarleiðin sem gefin er upp á heimasíðu fyrirtækisins hefði frekar lítið að segja því þangað bærust um 300 atvinnuumsóknir á dag sem þeir hefðu því miður ekki lausan mannskap í að fara yfir.
Auk þessa kvaddi okkar ástkæri kennari, sem hefur fylgt okkur megnið af náminu, í dag með þeim orðum að hans fyrirtæki, sem framleiðir og markaðssetur síunarbúnað fyrir bormylsnu úr olíubrunnum, þurfi að bæta við sig fjölda manns til að ferðast um heiminn og gera úttekt á aðstæðum á olíuborpöllum hjá væntanlegum kaupendum vörunnar. Þeir telja einmitt mjög æskilegt að umsækjendur hafi lokið námi í brønnteknikk og þekki grundvallaratriði í olíuvinnslu.
Þannig að ég veit ekki mitt rjúkandi ráð í væntanlegum atvinnuumsóknum en langar samt í raun alls ekki heldur að segja alveg skilið við ConocoPhillips þar sem ég hef haft það vægast sagt gott.
Margt hefur breyst síðan ég bjó á Íslandi fyrir aðeins þremur árum.