Sumarfrí atlisteinn.is 2013

fr 2013Þessir dagar sem maður heldur að ætli aldrei að renna upp gera það alltaf að lokum…fyrsti vinnudagur eftir sumarfrí! Jæja, líka fyrsti dagurinn í sumarfríinu sem er svo sem ekki fyrr en á morgun tæknilega séð en fríið hófst við lok vinnudags klukkan 16:00 í dag.

Þrjár vikur og tveir dagar af fullkomnu skeytingarleysi um annað en hvað verður í næsta glasi eða á næsta diski. Ekki alveg reyndar, við ætlum að sýna þá lágmarksábyrgð fólks sem verður fertugt á næsta og þarnæsta ári að taka vikupassa í World Class og reyna að þreifa eitthvað örlítið á stálinu í Íslandshluta sumarfrísins, mér skilst á Veðurstofu Íslands að það verði hvort sem er ekki hundi út sigandi allan tímann svo ekki verður um mikinn ónýttan sólartíma að ræða býst ég við.

Rigning á Íslandi verður auðveldlega bætt upp með sól í Albufeira í Portúgal þar sem bíður okkar íbúð 75 metra frá ströndinni og í miðjum gamla bæjarhlutanum sem ku vera eintóm öldur- og veitingahús. Svo spyrjum við að leikslokum með veðrið í London en heimsfréttirnar í dag greina frá byrjandi hitabylgju og dauðsföllum þar í landi svo það gæti farið á ýmsa vegu. Yes, London. You know: fish, chips, cup o’ tea, bad food, worse weather, Mary f**king Poppins, eins og persónan Avi kastaði svo fjálglega fram í kvikmyndinni Snatch. Annars er London bara tveggja daga stopp í lokin, eins konar stuðari áður en norskur raunveruleiki tekur völdin. Einn tebolli og óætur fiskur við ferðalok. Jafnvel sletta af Beefeater.

Hér á vesturströnd Noregs er annars að skella á hitabylgja á morgun og á að standa svo langt sem veðurhaukar eygja svo það er ekki seinna að vænna fyrir okkur að skella okkur í 11 C og rigningu á Íslandi þar sem annað hvert kaffihús og grillkjötbransinn í heild sinni stefna hraðbyri í gjaldþrot vegna ótíðar ef marka má fjölmiðla landsins. Hver kreppan rekur aðra. Ekki seinna vænna að kíkja á Café París og redda þessu. Það verður sko enginn AA-fundur Guðný [Atladóttir, framkvæmdastjóri þar].

Ólíkt sumarfríinu 2012 mun fríið í ár ekki einkennast af gríðarlegri dagskrá og skipulagningu atburða, slíkt mun í raun varla fyrirfinnast utan einnar sumarbústaðaferðar. Engu að síður er ekki örgrannt um að okkur langi að rekast á skemmtilega menn og konur öðruvísi en fyrir hreina tilviljun. Eftir vel heppnað brúðkaup í fyrra var það samþykkt einróma að í næsta fríi yrði leitast við að hitta vini og samferðamenn í aðeins minna en 200 manna hollum. Liður í þeirri viðleitni er þessi eini skipulagði viðburður sumarfrísins 2013:

Fimmtudaginn 25. júlí klukkan 17:00 munum við hjónin tylla okkur inn á Ölstofu Kormáks og Skjaldar sem allir vita hvar er (ef þið vitið það ekki þekkjum við ykkur sennilega ekki). Þarna unum við hag okkar alla jafna vel og sitjum líklegast eitthvað fram eftir. Þeir ógæfusömu einstaklingar sem hafa nennu, getu og rænu til geta þá lagt leið sína á stofuna þetta síðdegi og lagst grátandi á gólfið…eða bara sagt hæ. Þarna verðum við, gaman væri að sjá ykkur. Enkelt og greit eins og menn segja hér.

Annars má búast við næsta pistli hér á heimsfréttastofunni 11. ágúst eða þar um bil, ég verð með gamla íslenska GSM-númerið á Íslandi, norska aftur frá og með 29. júlí (fyrir þá sem hafa þessar upplýsingar). Ekki gera ráð fyrir mér á Facebook, ég á ódýrustu gerð af Nokia-síma og tek tölvuna ekki með. Netfangið atli[hjá]atlisteinn.is verður vaktað af fullkomnu handahófi þegar ég er nálægt tölvu í fríinu. Annars var planið að detta aðeins út úr hinum stafræna heimi um stund og upplifa hinn heiminn með húð og hári. Hvítvín, sól, rigning, gin og tónik, góður matur, gömlu gildin.

Góðar stundir gott fólk, takk fyrir að lesa, takk fyrir allar athugasemdirnar fjær og nær og ég ætla rétt að vona að þið hafið það gott í sumar hvort sem þið eruð í fríi eða ekki, hvernig sem veðrið er og hvað sem þið eruð annars að gera af ykkur.

Við sjáumst einhvers staðar.

Athugasemdir

athugasemdir