Sumarfrí atlisteinn.is 2012

beljurÞað er ekkert eins og fyrstu mínúturnar eftir að vinnu lýkur síðasta vinnudag fyrir sumarfrí. Þetta frí er einhvern veginn besta frí ársins. Gott veður, yfirleitt langt frí og oft ferðalag að endimörkum heimsins. Núna til Íslands. Við fljúgum frá Sola-flugvelli í fyrramálið, höngum sex tíma í Ósló og lendum í Keflavík 16:50. Þetta verða skemmtilegar tvær vikur í gamla landinu, B-in þrjú, brúðkaup, brennivín og bústaður, verða til staðar og margar máltíðir á góðum veitingastöðum. Óteljandi gamlir vinir og fjölskyldan. Svona á þetta að vera. (MYND: Þetta er eitt af því sem heillar mig við Rogaland. Við stoppuðum og heilsuðum upp á þessar á leið heim úr vinnunni um daginn. Þær stóðu íbyggnar við veginn. Í þriggja kílómetra fjarlægð hafa nokkur stærstu olíufélög heims athafnasvæði sín. Hérna mætast gamli og nýi tíminn, olían og búskapurinn, en lifa þó í sátt og samlyndi. Þetta er bændaþjóðin sem eignaðist óvænt feitustu olíulindir heims og varð í millitíðinni brautryðjandi í niðursuðu.)

Næsti pistill hér dettur inn 8. júlí ef ég verð ekki of fullur til að skrifa eftir flugferðina frá Íslandi. Hugsast getur reyndar að eitthvert lítilræði komi eftir brúðkaupið, mynd og/eða stuttur texti, en það yrði þá bara bónus. Vaktin verður svo staðin fram eftir sumri og beint inn í fyrsta haustið okkar í Sandnes sem verður ólýsanlegt. Ef þetta er ekki bær arinelds, rauðvíns og fagurra ljósaskipta hef ég aldrei kynnst slíkum.

Athugasemdir

athugasemdir