Nokkuð hreyfði hér vind í gær og fram á nótt. Það tók svona aðeins í, þó ekkert sem venjulegur íbúi í Engihjallanum í Kópavogi myndi kalla neinar hamfarir. Við heyrðum þokkalegan hvin í svefnherberginu, sem er uppi, og mér varð hugsað til ættjarðarinnar. Hérna í Stavanger virðist þessi andvari hafa verið á við fellibylinn Katrínu sem var og hét. Þakplötur svifu hér um loftin blá, tré hrundi ofan á eigendur sína einhvers staðar og í Sandnes fauk þak af félagsheimili í heilu lagi. Helsta tjónið í okkar nágrenni varð þegar 30 metra hár málmskorsteinn sem stendur upp úr miðstöðvarbyggingu háskólasjúkrahússins fauk út á hlið og hefur í allan dag vomað eins og skakki turninn í Pisa yfir fjölfarinni umferðargötu við hliðina á við mikinn viðbúnað lögreglu og slökkviliðs. Ekki er mikið um stólparok hér um slóðir enda fer samfélagið lóðbeint til helvítis þegar gerir nettan steinballarsteyting en það er fræg veðurtegund á hinum íslensku Vestfjörðum. (MYND: Skorsteinninn riðar til falls./Stavanger universitetssykehus, Marita Sørbø.)
Skorsteinn þessi var reistur árið 1977 og hefur sett nokkurn svip á spítalann og næsta nágrenni æ síðan. Eftir þetta atvik verður hann fjarlægður með öllu og hefur efri helmingurinn verið tekinn niður þegar þetta er skrifað. Ekki var þetta án stórátaka. Öllum lægri byggingum spítalans í 50 metra radíus var lokað, þar á meðal leikskóla sem hýsir afkvæmi starfsfólksins á daginn. Loka þurfti götunni og strætisvagninn okkar, númer 11, leggur nú lykkju á leið sína. Við þurftum því að taka strætó 4 á taekwondo-æfingu. Ekki voru þetta einu áhrif hamfaranna á mig þar sem allir mjólkurflutningar til mötuneytisins lögðust af og varð því mjólk í kaffið af skornum skammti sem er óþolandi. Bílstjórarnir frá Tine-mjólkurbúinu geta nefnilega bara ekið eina leið að spítalanum. Enn eitt dæmið um norska rörsýn sem ég hef gjarnan gert að yrkisefni hér.
Það hefur sem sagt gengið á ýmsu hér síðan í gær en nú er skollið á blankalogn á ný. Ég er strax búinn að ákveða að þetta hafi verið sameiginlegt páska- og vorhret og nú séu bara sléttar fjórar vikur í fyrsta sólbað ársins. (MYND: Svona lítur þetta út í víðara samhengi./Stavanger universitetssykehus, Marita Sørbø.)
Nú hef ég migið ryki í rúmar sex vikur og frábeðið mér með öllu nautn áfengra drykkja. Ég játa að mig dauðlangar orðið í brennivín en hef engu að síður ákveðið að bera krossinn nokkrum skrefum lengra en í meðalári. Í stað þess að taka um líknandi hönd Bakkusar hinn fyrsta dag marsmánaðar eins og tíðkast hefur undanfarin ár mun ég reyna andlegan styrk minn til hins ýtrasta og bergja fyrst af hunangsbikarnum laugardaginn 12. mars. Hef ég heitið á Strandakirkju í þessari baráttu minni eins og löngum hefur tíðkast þegar mikið liggur við.
Einhverjir hafa talið það rangt að hafa ý í ýtrasta í orðasambandinu til hins ýtrasta. Það er reginmisskilningur og sjást hans því miður dæmi víða og oft í íslenskum fjölmiðlum þar sem þó æva skyldi. Menn rugla þarna saman orðinu ítrasta sem komið er af ítur í merkingunni fallegur eða ágætur og efsta stigi lýsingarorðsins ýtrari sem táknar frekar eða gerlegar og er í efsta stigi ýtrastur svo sem rita ber í samhenginu til hins ýtrasta. Orðið er gamalt tökuorð úr dönsku, yderlig, og er sá ritháttur endanleg staðfesting og í raun sú sem fyrst ætti að líta til í vafa.