Varla er hægt annað en að setja hérna stutta ferðasögu þessarar skemmtilegu hvítasunnuhelgar, þó ekki sé nema til að fylgja eftir ferðasögunni frá 2010 þar sem ég hef einmitt skrifað að nú sé ég tilneyddur að endurtaka förina, þó ekki sé nema til að ná viðurkenndum myndum af dýrðinni. (MYND: Að komast frá A til B í Noregi er yfirleitt ekki góð skemmtun, biðröðin í ferjuna í Lauvvik.)
Þátttaka á vinnumarkaði gerði það að verkum að förin hófst ekki fyrr en klukkan 20:00 á föstudaginn en það kom nú ekki í veg fyrir fullkomna umferðarteppu þegar nær dró ferjuleiðinni yfir Høgsfjorden en slík var ásóknin að ég gat með góðri samvisku drepið á bifreiðinni og gengið mér til heilsubótar í nágrenninu án þess að röðin þokaðist millimetra á meðan. Siglingin var þó hin fegursta upplifun og fjallshlíðarnar við firðina hrikalegar í kvöldsólinni. Þegar úr ferjunni er komið er eftirleikurinn auðveldur og ekið um 15 kílómetra að tjaldstæðinu sem er fjóra kílómetra frá upphafi gönguleiðarinnar. Hafi fólk lítinn áhuga á að koma heim með rúmlega 100 mýbit er upplagt að aka þessa fjóra kílómetra og fá sér herbergi á Preikestolen fjellstue sem er nýtísku hótel með bar og klósettum. Verður það gert næst!
Svo sem er lítið hægt að kvarta yfir tjaldstæðinu sjálfu þótt eftirstöðvar þeirrar skordýraflóru sem þar þrífst valdi mér enn kláða, sviða og roða auk þess sem hlutar af mér virðast seita gegnsæjum gulleitum vökva á vissum tímum sólarhringsins. Þá fer nafnorðið tjaldstæði í raun að heyra sögunni til. Mér telst til að við höfum verið í einu af þremur tjöldum á svæðinu innan um sirka 50 einbýlishús á hjólum því annað er varla hægt að kalla þessa húsbíla nú orðið sem bjóða upp á slíkar allsnægtir að hrein ráðgáta er að fólk hafi enn fyrir því að búa í hefðbundnum húsum.
Litlu skiptir orðið hvers kyns fríi maður er í, sumar-, helgar- eða páska-, ég sef orðið ekki neitt. Að vera glaðvaknaður og farinn að svipast um eftir hinu lífgefandi baunaseyði kaffi klukkan 07:00 á laugardagsmorgni um hvítasunnuhelgi ber vott um fullkomið skilningsleysi á hugtakinu frí en svona er þetta nú bara orðið hin síðustu ár engu að síður, ég vakna útsofinn á tíma sem ég hefði skilgreint sem miðja nótt fyrir ekkert mjög mörgum árum. Breyttir tímar. Kaffið fékkst þó fljótt og vel hjá hollensku afgreiðsludömunum í þjónustumiðstöðinni sem voru í miðjum verklega hlutanum af námi sínu í ferðamálafræðum við einhvern hollenskan skóla og færðu mér rjúkandi og ljúffengt koffie verkeert eins og þarlendir vilja nefna kaffi með mjólk.
Sjálf gangan hófst svo rétt upp úr klukkan 11 og var aldeilis önnur hlið upp á teningnum nú en fyrir fjórum árum þegar ég slapp kalinn á hjarta, hráblautur með stóran grænan maðk á vinstri buxnaskálm inn í rútu og bölvaði þessum hundskinnsútnára í sand og ösku. Þessa fögru hvítasunnuhelgi skein sól í heiði og hreyfði varla vind enda var býsna margt um manninn á gönguleiðinni. Um 200.000 manns ganga upp á Preikestolen ár hvert til heilsubótar, útivistar, útsýnis eða hreinlega til þess að fyrirfara sér og hafa sumir skipulagt dauða sinn í félagi við aðra á sjálfsmorðsnetsíðum. Hressandi…
Þetta er einstaklega flott gönguleið, það verður að segjast, og storkubergið anortositt (hef ekki fundið út hvað íslenskir jarðfræðingar vilja nefna það) sem er algengasta bergtegundin í Rogaland á þar stóran hlut að máli með sínum sérstöku bogadregnu berglögum sem mynda víða mjög svipmikil klettabelti og fjöll á svæðinu. Við stóðum á Preikestolen (nú nota ég alls staðar nýnorska heitið en á bókmáli heitir fyrirbærið Prekestolen, mér finnst hitt fallegra) klukkustund og níu mínútum eftir að við hófum gönguna og útsýnið yfir Lysefjorden og fjöllin í kring var ekkert minna en stórkostlegt (sjá myndir á Facebook frá því á laugardaginn). Ég nennti nú samt ekki að stoppa neitt að ráði þarna enda var ægileg kaffilöngun farin að gera vart við sig og hlakkaði ég í hugskoti mínu mjög til að panta mér tvo vænta koffie verkeert hjá hollensku vinkonunum í þjónustumiðstöðinni.
Fín helgi og klárlega ekki hægt að biðja um betra veður eða fleiri skordýrabit. Næst á dagskrá er að sigra fjallið Kjerag og láta mynda okkur á klettinum Kjeragbolten sem þar situr fastur í skoru. Af honum er eins kílómetra fall niður á jafnsléttu sem er 400 metrum lengra en af Preikestolen svo verkefnið krefst klárlega andlegs undirbúnings. Verður þó líklegast framkvæmt fyrir sumarfrí.