Stétt með stétt!

hamragangaVið erum búin að skrá okkur í verkalýðsfélagið Fagforbundet sem hefur innan sinna vébanda aragrúa starfsgreina og tilheyrir regnhlífarsamtökunum Landsorganisasjonen sem er eins konar ASÍ á sterum. Hér dettur maður ekki sjálfkrafa inn í stéttarfélag þegar maður byrjar að vinna einhvers staðar heldur velur maður það sjálfur og semur svo við félagið um hvers konar slysatryggingar maður ætlar sér að taka og hvað maður borgar fyrir þær. Félagsgjaldið sjálft er 1,45 prósent af heildarlaunum (a.m.k. hjá Fagforbundet) og heyrst hefur að maður fái það sem maður greiðir fyrir ef á reynir. Norsk verkalýðsfélög drepa fyrir félagsmenn sína lendi þeir í stappi við vinnuveitendur.

Aðild að verkalýðsfélagi er víst einnig skilyrði fyrir atvinnuleysisbótum lendi maður í slíkri aðstöðu. Þetta er svona fróðleikur sem rekur á fjörur manns fyrir tilviljun og maður þakkar almættinu fyrir. Annað dæmi um slíkar upplýsingar er þegar við fréttum núna nýlega að í desember greiðist bara hálfur tekjuskattur í Noregi og því borgi sig að grípa alla auka- og yfirvinnu sem gefst í nóvember. Þessi ráðstöfun er einfaldlega til þess að launafólk eyði meiri peningum fyrir jólin. Slík eyðsla örvar hagkerfið og örvun er ákaflega holl fyrir líkamsstarfsemi hagkerfa. Eini maðurinn sem skilur þetta ekki er Steingrímur J. Sigfússon sem telur 100 prósent tekjuskatt einu færu leiðina til að reka þjóð.

NRK var með frétt um það í hádeginu í dag að fjöldi aðfluttra Íslendinga hingað hefði rúmlega fimmfaldast á fimm árum. Textaútgáfu fréttarinnar má nálgast hér og þarna inni má smella á tengil til að hlusta á útvarpsfréttina. Deildarstjórinn á gjörgæslunni benti mér á þetta og bætti því við að ‘…hvis de er på din kaliber bare la dem komme.’ Ég grét af geðshræringu (inni í mér!!!) en ég skal alveg taka það á mig skuldlaust að ég er búinn að svitna rækilega þarna á spítalanum, að hluta til vegna þess að það er heitara en í helvíti á gjörgæslunni en einnig vegna þess að ég hjóla í þetta af krafti. Hér eru Íslendingar nefnilega hátt skrifaðir sem ósérhlífið og heiðarlegt vinnuafl og ég ætla ekki að verða til þess að drepa þann orðstír. Auðvitað er stór hluti ástæðunnar líka að við verðum bæði að ganga þarna út með almennileg meðmæli í haust, fyrstu meðmælin frá norskum vinnuveitanda. Meðmæli að heiman á norsku hafa staðið fyrir sínu en hitt verður punktur yfir i.

Maður drepur sig svo sem ekkert á því að standa sig þokkalega í vinnu hérna því Norðmennirnir eru rólegir í tíðinni og eru ekkert að sprengja sig. ‘Ta en pause!’ og ‘Bare slapp av!’ eru einkunnarorðin hér um leið og einhver er farinn að vinna óeðlilega hratt. Samt snúast hjól atvinnulífsins á hálfum ljóshraða hér í landi. Merkilegt.

Senn líður að þessari óskaplegu rokkhátíð í Kvinesdal sem er hálfa leið héðan til Kristiansand. Það verður ekki leiðinlegt að sjá gamla G’n’R-goðið Slash á sviði og hvað þá Megadeth (þeirra ritháttur). Ég hélt að sá fyrrnefndi væri búinn að drekka sig í hel og hinir löngu hættir. Ósköp fylgist maður illa með.

Athugasemdir

athugasemdir