Stappa og steik í Stavanger (er þetta nokkuð ofstuðlað?)

gladmat2012Við stóðumst ekki freistinguna í þessari einmuna veðurblíðu að kíkja í miðbæ Stavanger eftir vinnu í dag og athuga stöðuna á Gladmat-hátíðinni sem sett var með viðhöfn í gærkvöldi. Glampandi sólskin og 20 stiga hiti eru kjöraðstæður til að sækja hátíðir í miðbæinn enda var stemmningin svakaleg og manngrúin nánast of þéttur.

Hressileg viðbót við innlenda hátíðargesti voru fjögur skemmtiferðaskip sem öll lögðust að bryggju við Vågen í dag með samtals 13.000 farþega en líkt og á Íslandi er árið í ár metár í komum slíkra farkosta til Stavanger og gott ef ekki fjórða eða fimmta metárið í röð.

Að jafnaði sækja um 250.000 manns Gladmat, sem stendur frá miðvikudegi til laugardags, en þar keppast innlendir og erlendir matvælaframleiðendur og veitingahús við að kynna það sem efst er á baugi hjá þeim, hvort sem um mat eða drykk er að ræða. Í hitteðfyrra gæddum við okkur meðal annars á elgpylsu auk þess sem ég fékk mér hanastél beint úr höndum Noregsmeistara barþjóna.gladmat2012b

Hátíðin er að mestu leyti hýst í tjöldum en auk þess eru allir veitingastaðir miðbæjarins með og skapast mikil stemmning, einkum og sér í lagi ef veður er eins og það hefur verið í gær og í dag. Örtröðin á miðju hátíðarsvæðinu er þannig að maður kemst með naumindum áfram og ljóst var að margir farþegar risaskipsins MSC Magnifica kusu frekar að sitja í rólegheitum á svölum við káetur sínar og horfa niður á miðbæ Stavanger með glas í hönd (geri ég ráð fyrir).

Það stefnir í metaðsókn á Gladmat í ár og feitustu vonbrigði hátíðarinnar komu fram strax í gærkvöldi. Þá mistókst háðfuglinum Rune Bjerga og matgæðingnum Arve Serigstad að komast í heimsmetabók Guinness með stærstu vöfflu heims sem var 1,44 metrar í þvermál. Lögreglan í Stavanger annaðist mælingar en sá galli var á gjöf Njarðar að vafflan náði ekki að bakast í 1,5 metra vöfflujárninu sem umlukti hana. Hún endaði sem hálfbökuð deigdrulla og metið fór ekki á síður Guinness að þessu sinni. Arve Serigstad má þó vel við una þar sem hann varð Norðurlandameistari í pizzabakstri árið 2010 þótt ekki hefði það verið neitt heimsmet.gladmat2012c

Fínt stopp í miðbænum, gott kebab prófað í einhverju tjaldinu og svo beint á æfingu í City Gym. Kíkjum sennilega aftur á laugardaginn ef veður helst. (MYND: Seinni tvær myndirnar voru teknar af þakpallinum hjá Tango Bar & Kjøkken og gefa fína yfirsýn á hátíðina. Á laugardaginn verður tvöfaldur þessi fjöldi á röltinu skíni sól en gott veður er veruleg forsenda hátíða á borð við Gladmat.)

Athugasemdir

athugasemdir