Sprenging í norsku leikhúslífi

haugtussaiiLoksins loksins, tilkomumikið skáldverk sem rís eins og hamraborg upp úr flatneskju norskrar leikritunar! (Bið forláts á vægum snúningi út úr frægum ritdómi Kristjáns Albertssonar um Vefarann mikla.) Ekki er örgrannt um það að við verðum fremst í röðinni á frumsýningu stórvirkisins Haugtussa sem Rogaland Teater auglýsir nú af öllum mætti laugardaginn 29. janúar. Væntanlega er þarna komið ögrandi svar norskrar leikhúselítu við Píkusögum Borgarleikhússins þar sem Halldóra Geirharðsdóttir og fleiri góðar konur ræddu um sín helgustu vé. Norsararnir hyggjast greinilega ná undirtökunum strax með meitlaðri titli á verkinu. Gaman verður að sjá útkomuna.

Auðvitað lýg ég þessu öllu, hin norska Haugtussa er epískt verk, byggt á ljóðabálki Arne Garborg frá 1895 sem fjallar um uppvaxtarár ungrar álfkonu, Gislaugar, sem býr yfir skyggni- og spádómsgáfu, allt mjög dramatískt. Við höfum reyndar aldrei farið í leikhús þá átta mánuði sem við höfum verið búsett í Noregi. Meira að segja höfum við verið sáralöt við að fara í bíó þótt við séum tiltölulega mikið bíófólk, alls fjögur skipti þessa átta mánuði, nú síðast reyndar í kvöld á The Tourist með Johnny Depp sem var ágæt afþreying og gerist í klóaki Evrópu, Feneyjum, borg sem ég hef tvisvar komið til og liggur við að segja að það sé tveimur skiptum of mikið. Peningaplokkandi, illa lyktandi, óumratanleg, allt of heit á sumrin með ónýtar loftkælingar á hótelum. Síðast þegar ég var þar, sumarið 2005, stakk mig stór græn fluga og verpti greinilega einhverju í mig. Löngu eftir að ég var kominn til Íslands vall einhver græn leðja úr upphandleggnum á mér. Bölvun hvílir á þessari sökkvandi hrákasmíð hver sem betur fer verður horfin í Adríahafið eftir nokkur ár. En þetta var nú útúrdúr, myndin var sem sagt ágæt.

Ég tók eftir óþolandi staðreynd þegar ég lá í vefútgáfu Almanaks Háskóla Íslands í dag en ég velti mér mikið upp úr stöðu færanlegra kirkjuhátíða á borð við páska og þeirra hátíðisdaga annarra sem færast með þeim. Ég skal veðja SS lifrarpylsu um að ég er með fyrstu mönnum til að átta mig á því að þeir útvöldu Íslendingar sem búa á Íslandi og hafa þar atvinnu eiga svakalega lúxusviku í vændum í júní. Páskar og þar með hvítasunnuhelgi eru svo seint á ferð í ár að hvítasunnan er önnur helgin í júní. Annan í hvítasunnu ber þannig upp á mánudaginn 13. júní sem táknar auðvitað að 17. júní er föstudagurinn í þeirri sömu viku. Tvær langar helgar í röð og þrír vinnudagar á milli! Mér þætti gaman að vita hve oft þessi staða kemur að meðaltali upp á einni öld, ég man ekki eftir að hafa upplifað þetta nokkru sinni, að minnsta kosti ekki eftir að þátttaka mín á vinnumarkaði hófst.

Ég fæ hvítasunnufríið auðvitað en verð mættur til vinnu klukkan 07:00 að morgni þjóðhátíðardags Íslendinga. Hins vegar fæ ég frí 17. maí, hinn hérlenda þjóðhátíðardag, en hann er á þriðjudegi í ár og gefur engin önnur réttindi en fyllerí á mánudagskvöldi. Það má reyndar alveg notast við það. Árið 2004 flaug mér í hug hvort sú staða gæti komið upp að sumardagurinn fyrsti félli á 30. apríl og 1. maí yrði þar með föstudagur daginn eftir og fjögurra daga helgi yrði til. Vonbrigðin voru mikil þegar ég sló því upp í orðskýringakafla almanaksins að sumardagurinn fyrsti þyrfti endilega að vera fyrsti fimmtudagur eftir 18. apríl og gæti þar með aldrei orðið síðar en 25. apríl. Hver semur þessa vitleysu??

Athugasemdir

athugasemdir