Spilavíti í Heilsuverndarstöðinni – snilld eða geðveiki?

spilavitiMaður hefur heyrt margar vitlausari hugmyndir en þá sem Vísir fjallar um í þessari frétt. Fyrst var hugmyndin að breyta gömlu Heilsuverndarstöðinni í sjúkrahótel. Þegar enginn sýndi slíkum rekstri áhuga var talað um að hún yrði bara venjulegt hótel (þótt leitun sé að óhótellegri byggingu) en nú er spilavíti það nýjasta og sennilega besta hugmyndin.

Heilbrigðisráðherra rýkur auðvitað strax upp og segist leggjast eindregið gegn hugmyndinni sem eru engar fréttir þar sem hún leggst gegn flestu sem eitthvert vit er í, líkt og ríkisstjórnin öll. Helstu rök ráðherra eru að spilavíti verði orðspori landsins ekki til framdráttar. Þó er hvort tveggja, að orðsporið verður varla svartara og spilavíti hafa að mínu viti fram að þessu ekki verið þekkt fyrir annað en að draga að sér fólk sem langar að eyða peningum, þar á meðal ferðamenn. Ekki þarf að nefna fleiri dæmi en Las Vegas og Monte Carlo því til stuðnings.

Nóg er vælt um að auka þurfi ferðamannastraum hingað og þarna er öflugur máttarstólpi í þann aðdrátt kominn. Spilavíti með tilheyrandi áfengissölu en apótek er þegar til staðar í næsta húsi fyrir þá sem þurfa að styrkja sig á pillum eftir gjaldþrot eða skyndileg auðæfi. Tær snilld eins og bankamenn hefðu einhvern tímann sagt.

Landlæknir hugsar málið og á að skila af sér einhverju áliti á föstudaginn. Málflutningur frá embætti landlæknis hefur annars verið hressandi undanfarið. Í einhverri frétt um sprautufíkla fyrir nokkrum dögum var rætt við landlækni eða aðstoðarlandlækni og lét sá þau orð falla að oft væri þörf en nú nauðsyn að efla forvarnir. Réttara væri að tala um að taka upp forvarnir, þær virðast ekki vera neinar, hvorki hvað snertir drykkju, dóp, reykingar né spilafíkn. Peningunum er hins vegar ausið í að koma fólki á réttan kjöl þegar það er löngu búið að hálfdrepa sjálft sig og/eða aðra á einhverju framangreinds.

Mér eru til dæmis í fersku minni öflugar forvarnir gegn reykingum sem glumdu í hausnum á manni upp allan grunnskólann. Skelfilegar myndir af lungum og æðum stórreykingamanna og hópum fólks með sígarettuna í annarri og súrefnisgrímuna í hinni. Bjartsýnismenn með krónískt stórmennskubrjálæði fundu upp slagorðið reyklaust Ísland árið 2000 (RÍS 2000) sem hófst af krafti um 1986 og dó drottni sínum löngu fyrir 2000. Reyndar hætti ég að reykja vorið 2000 og lagði þannig mína sígarettu á vogarskál RÍS 2000 – en þökk sé öflugum reykingaforvörnum grunnskólaáranna byrjaði ég ekki að reykja fyrr en ég var hálfnaður gegnum framhaldsskóla. Hvar eru þessar góðu forvarnir nú?

Athugasemdir

athugasemdir