Nú hefst fjörið, hrikalegur E. coli-faraldur fer nú sem eldur í sinu frá Þýskalandi yfir Danmörku og Svíþjóð með stefnu á Noreg, að sögn Aftenposten og þeirra sérfræðinga sem blaðið ráðfærir sig við (frétt um fyrsta tilfellið í Noregi birtist á síðu blaðsins á meðan ég skrifaði þennan pistil). Sökudólgurinn er talinn vera innfluttar spænskar agúrkur þótt ekki sé búið að negla þær hundrað prósent. Það yrði nú alveg dæmigert ef ferðafélagarnir í mjög svo eftirvæntu sumarfríi yrðu blóði drifinn niðurgangur, nýrnabilun og krampaköst, hin huggulegu sjúkdómseinkenni E. coli-sýkingar.
Rúmlega 1.000 manns liggja í Þýskalandi, níu í Danmörku, einn hér og 30 í Svíþjóð og lýsa fræðingar því yfir, felmtri slegnir, að bakteríurnar séu af ‘EHEC-stofni’ sem hljómar í senn mjög fræðilega og skelfilega. Maður mun ekkert úða í sig gamla agúrkusalatinu alveg næstu dagana, því er hér með þinglýst.
Hérna í Stavanger hefur verið þrútið loft og þungur sjór í dag, rigning og nokkur gola. Ekki er þó ástæða til að örvænta þar sem glampandi sól og blíðviðri er spáð frá miðvikudegi. Á uppstigningardag ætlum við að virkja útivistargírinn eftir nokkurt hlé og ganga á hinn nafntogaða hamar Preikestolen sem gnæfir í rúmlega 600 metra hæð yfir haffleti Lyse-fjarðarins, BASE-stökkvurum og hröfnum að leik. Við sigldum undir hann um hvítasunnuna í fyrra og þótti mikið til koma en nú á að klára dæmið og standa á þessu túristasegulstáli Stavanger og nágrennis.
Siglt er með ferju yfir til Tau þaðan sem ekið er með mannskapinn upp í Preikestolhytta, farfuglaheimili og bækistöð stólfarenda. Þaðan er tveggja tíma gönguferð til stólsins en við hann loðir sú sérkennilega hjátrú að hann brotni af bjarginu og steypist 600 metra niður í hafið þann dag sem sjö bræður gangi að eiga sjö systur við Lyse-fjörðinn. Við skulum vona að fólk fari ekki að leggja í svo fjölmenna og erfiða hjónavígslu á uppstigningardag. Gerist það ekki má búast við myndum og ferðasögu hér á síðunni á fimmtudagskvöldið eða svo. Spyrjum að leikslokum.