Sorgleg þjónusta hjá Kidda Rót í Hveragerði

p8170120Langt er um liðið síðan klósett vikunnar hefur verið valið en síðdegis mánudaginn 17. ágúst spratt upp svo áberandi klósett að fádæmi þykja. Við lok hringferðar um landið ákváðum við að stoppa eftir 400 kílómetra akstur og þiggja kaffibolla hjá Kidda Rót í Hveragerði. Skemmst er frá því að segja að sú heimsókn varð fremur endaslepp. (MYND: Kaffihús Kidda. Honum er ráðlagt að funda með starfsfólki sínu um hvað þjónustulund táknar.)

Ferðalúin röltum við inn á staðinn og tókum okkur stöðu koffeinþyrst við barborðið. Þar stóð drengur nokkur og útbjó kaffi handa viðskiptavinum og voru auk hans tvær þjónustustúlkur á staðnum. Ekkert þeirra bauð okkur góðan dag og ekkert þeirra gerði sig líklegt til að veita okkur hina minnstu þjónustu. Þvert á móti létu stúlkurnar sig hverfa inn í eldhúsið þar sem þær stóðu og gerðu nákvæmlega ekki neitt en pilturinn lagði sig fram um að taka ekki eftir okkur. Öll horfðu þau þó á okkur, hvert á sínum tímapunkti.

Eftir að hafa staðið tæpar sjö mínútur í þögn við barborðið ákváðum við að láta ekki bjóða okkur upp á slíkan fáránleika og röltum yfir til Almars bakara sem er við hliðina á. Ekki stóð á þjónustu þar, brosandi stúlka tók okkur með virktum og bauð okkur þegar í stað upp á ljúffengt og rjúkandi kaffi sem við drukkum á bekk fyrir utan í hæglætisveðri. Á meðan laumaðist drengurinn af bar Kidda fram hjá okkur og gerði sitt besta til að líta ekki í áttina til okkar enda hafa hann og samstarfsfólk hans væntanlega vitað upp á sig sökina.

Það er ömurlegt að verða vitni að svo lélegri þjónustu og síðuritari vonar að Kiddi lesi starfsfólki sínu pistilinn. Nenni það ekki að vinna er kappnóg af fólki sem vantar vinnu, svo mikið er víst. Þá er rétt að benda á að þetta er ekki í fyrsta sinn sem kaffihúsið hlýtur gagnrýni á lýðnetinu:

Reikfýla á Kaffi Kidda Rót.

 

Athugasemdir

athugasemdir