Snúið orðalag ráðherra, leti dauðans og skattar

johannaEr einhver mánudagur í mér eða varð Jóhönnu Sigurðardóttur alvarlegur fótaskortur á tungunni þegar hún fagnaði vantrauststillögu Bjarna Ben á Alþingi (Alþyngi) í dag. Orðrétt segir hún í fréttatíma RÚV og á við stjórnarandstöðuna: ‘Þeir hafa ekki svo oft boðað það að flytja hér vantraust á ríkisstjórnina án þess að láta verða af því.’ Er þetta ekki alveg galið, hlýtur þetta ekki að eiga að vera ‘Þeir hafa ekki svo SJALDAN…’? Eða er þetta einhver nýr pólitískur orðaleikur sem er of djúpur til að skiljast??

Ríkisútvarpið fjallar einnig í dag um starfamessu EURES í Reykjavík sem fram fer um næstu helgi. Þar ætti að verða húsfyllir eftir Danske Bank-skýrsluna nýju sem spáir tíu prósenta atvinnuleysi á Íslandi næstu ár. Ég fjallaði um starfamessuna í pistli fyrir nokkrum dögum og sagði frá því þegar við fórum þarna í fyrravor. Það var ágætt og mesti ávinningurinn að komast í samband við starfsfólk norsku vinnumálastofnunarinnar NAV sem varð okkur í framhaldinu mjög innan handar. Fjórtán norsk fyrirtæki kynna starfsemi sína í ráðhúsinu um helgina. Bendi einnig á þessa frétt mbl.is um málið.

Hvílíkt högg að mæta í vinnuna í dag eftir þriggja daga helgi og flensu. Letin var hreint og beint að sliga mig. Greinilegur munur í þessum efnum eftir að ég varð 37 ára og braut þar með 30 ára múrinn í eftirlaunin. Nýr lokadagur minn á vinnumarkaði er 30. mars 2041 og hnikar þar um sjö löng ár frá markmiðinu sem var fyrir hrun. Þá ætlaði ég að byrja að sleikja eftirlaunasólina á sextugsafmælinu og ekki degi seinna. Svo fór Ísland á hausinn og ég með. Núna í janúar tók ég út síðustu krónurnar af viðbótarlífeyrissparnaðinum sem ég hóf með fögrum fyrirheitum haustið 2003 og var að nálgast þrjár milljónir. Sjaldan verður ósinn eins og uppsprettuna dreymir, orti einhver.

Við byrjuðum fljótlega í norskum viðbótarlífeyrissparnaði eftir að við fluttum hingað. Hann heitir IPS, Individuell Pensjon Sparing, og er í grundvallaratriðum frábrugðinn þeim íslenska. Hér er viðbótasparnaðurinn ekki dreginn af launum, hann kemur bara sem krafa í heimabankann einhvern dag mánaðarins sem maður velur sjálfur. Svo borgar maður þetta og fær skattaafsláttinn útborgaðan við álagningu árið á eftir. Sérstakt.
skattar
Talandi um skatta þá erum við að fara að telja fram hérna í fyrsta sinn núna á næstu dögum. Þetta er ekki flókið, maður fær algjörlega forútfyllt yfirlit sent í pósti. Ef allt er rétt og maður hefur engar athugasemdir gerir maður ekki neitt og þögnin jafngildir samþykki. Það finnst mér sniðugt og um leið mjög ónorskt. Venjuleg norsk aðferð væri að gera þetta flókið en þeir gera það ekki. Við getum þetta hins vegar ekki af því að við þurfum að biðja um svonefnt standardfradrag sem er skattaafsláttur sem nýir íbúar í Noregi fá fyrstu tvö skattaárin sem þeir búa hér. Hann jafngildir tíunda hluta heildarlauna skattaársins á undan, þó fer endurgreiðslan ekki yfir 40.000 NOK. Sá böggull fylgir þó skammrifi að þessi endurgreiðsla útilokar margar aðrar endurgreiðslur og maður verður að vera sniðugur og reikna hvaða endurgreiðsla verður hæst. Ekki mín sterka hlið.

Djöfull er ég orðinn leiðinlegur, skrifa bara um pólitík og skatta. Samt er mest lesna efnið á síðunni minni yfirleitt tengt gyllinæð og brjósklosi ef marka má vikulega lestrartölfræði. Þetta er ekki hægt.

Athugasemdir

athugasemdir