Sniðug norsk fyrirtæki og 175 rúmfataskipti

p7260001Nú er ljóst að við flytjum niður í Våland á laugardaginn, 31. júlí. Leigusalarnir okkar fundu leigjanda sem vill koma inn um mánaðamótin og við vorum búin að kanna hjá nýja leigusalanum hvort við mættum koma hálfum mánuði fyrr og það var auðsótt mál. Hér ríkir því þjóðhátíðarstemmning, 11 kílómetra hjólreiðum ókristilega snemma morguns lýkur opinberlega á föstudaginn. Í staðinn kemur um 200 metra rölt í vinnuna sem er hreinlega met í mínu lífi fyrir utan nokkra daga í unglingavinnunni, sennilega sumarið 1988, þegar hópurinn minn var að vinna í garði á Sunnuflötinni í Garðabænum og maður gat labbað eða hjólað beint þangað úr rúminu. Það tók ekki nema 22 ár að endurheimta þennan lúxus!

Við kíktum við hjá Lyse á leið heim úr vinnunni í dag og pöntuðum rafmagn, nettengingu, heimasíma, sjónvarp með 46 stöðvum og öryggiskerfi. Þetta tók nákvæmlega 10 mínútur og allt verður komið í gagnið um það leyti sem við flytjum nema öryggiskerfið sem tekur aðeins lengri tíma. Geri aðrir betur en Lyse að bjóða upp á þetta drasl allt saman í einum pakka, svokölluðu Altibox, og það á fullkomlega samkeppnishæfu verði, um það bil 2.300 NOK á mánuði. Einhverjir gætu stórgrætt á því að opna svona þjónustuaðila á Íslandi. Þar þyrfti maður að heimsækja minnst þrjú fyrirtæki til að fá þetta í gegn en þau væru hins vegar mjög líklega í eigu eins og sama aðilans. Það er bara ekki nóg.
bokerogbors
Bókakaffihúsið Bøker & børst við Øvre Holmegate 32 hérna niðri í miðbæ er staður vikunnar að þessu sinni…ef ekki ársins. Þetta er alveg þrælmagnað kaffihús, hlaðið bókum ásamt hinum sanna kaffihúsaanda. Fyrir utan notalega borðaþyrpingu úti við götu er boðið upp á bakgarð sem slær meira að segja út gamla góða Hressógarðinn í Reykjavík. Garðurinn hjá Bøker & børst er örsmár með sófum og fossi. Hálfsmánaðarlega eru þar kvikmyndasýningar á vegum Stavanger filmklubb og myndunum þá varpað upp á gamlan múrvegg. Það er dagljóst að þarna verður einn og einn kaffibolli tekinn eftir að við flytjum niður í bæ. Bøker & børst er ekta sumarstaður en ég hef svo sem ekki upplifað hann að vetrarlagi enn þá. (MYND: Litið í kaffi og Bailey’s á Bøker & børst í gær.)
bokerogborstvo
Ég er í hreinu áfalli eftir að hafa hafið störf á akutt poliklinikk-deildinni en það gerðist í morgun. Ég játa með soghljóðum að ég sakna gjörgæsludeildarinnar minnar sem var svo græn og heimilisleg. Ég þarf að skipta á rúmum á nýju deildinni, hve afbakað er það?!? Það er ekki eins og þetta séu sjúkrarúm, þarna liggja nefnilega engir sjúklingar. Þetta eru rúm fyrir starfsfólkið sem er á næturvakt. Það sefur bara eins og ungabörn á vaktinni í sérherbergjum með útkallssíma sér við hlið og rýkur fram ef síminn hringir. Hringi hann ekki áttu bara fullkomna næturvakt steinsofandi með milljón á tímann. Er þetta draumastarfið holdi klætt eða hvað?? Ég skipti um rúmföt hjá þessu liði fimm daga vikunnar næstu fimm vikur. Það eru 25 skiptingar á sjö rúmum sem gerir 175 skiptingar í það heila en það er oftar en ég hef skipt á mínu eigin helvítis rúmi um ævina!!! Og það eru ekki einu sinni teygjulök í þessum bölvaða heilbrigðisgeira. (MYND: Øvre Holmegate í miðbæ Stavanger. Meira að segja Amsterdam bliknar.)

Athugasemdir

athugasemdir