Skuggar fortíðar

stefn sigHér hefur verið gestkvæmt um helgina eins og oft áður en nú bar svo við að Garðbæingur knúði dyra í gærkvöldi og upphófst við það hin mesta svallveisla sem viðstaddir höfðu af gagn og allnokkurt gaman. Þarna var á ferð Stefán Sigurðsson, mikið valmenni og lífskúnstner sem nam með mér við Fjölbrautaskólann í Garðabæ í fyrndinni. Margt vatn hefur runnið til sjávar en síðast þegar ég sá Stefán starfrækti hann bensíndælu á Shell-stöðinni í Garðabæ sem nú er horfin í torfgrafir. Þegar þetta er ritað er pilturinn hins vegar orðinn einn helsti mógúll blikkbransans í Bergen þar sem hann dæmir lifendur og dauða. (MYND: Við Stefán, þannig séð óbreyttir síðan í FG 1991.)

Eiginkona Stefáns er norðlensk valkyrja, Sigrún Jensdóttir að nafni, hvasseyg, herðabreið og djarfmælt við höfðingja. Svo vel hefur henni tekist til við uppeldi pilts að nægði að rétta tómt glas í áttina að honum og segja í mæðutón “Stefán minn” og kom glasið þá von bráðar til baka, barmafullt af göróttum drykk. Kvöldið var hin besta skemmtun og sátu hér einnig Ásgeir Elíasson og Sigurbjörn Bjarnason. Lágu menn að lokum í óviti af mungáti eins og segir í konungasögum.

Þrátt fyrir þetta allt, nokkur glös á föstudagskvöldið og almenna helgarfrísleti hafði ég mig á hlaupabrettið í City Gym um tvöleytið í dag og átti þar ömurlegasta hálftíma lífs míns en mætingin var liður í átaki mínu Hætta að skrópa í ræktinni þrátt fyrir drykkju sem hófst einmitt í síðustu viku og miðar að því að takmarka tjónið sem óumflýjanlega verður í þeirri þriggja vikna át- og drykkjuveislu sem sumarfríið í ár ber í skauti sér.

Á eins árs brúðkaupsafmæli í dag lít ég eðlilega til baka og rifja upp 30. júní 2012 og kannski sérstaklega síðustu dagana fyrir hann en aldrei hefur sumarfrí borið eins illa nafn með rentu, bad waves of paranoia, madness, fear and loathing eins og segir í uppáhaldskvikmyndinni minni. Sérstaklega ánægjulegt var að lesa á fréttasíðum dagsins um vel heppnað brúðkaup og fertugsafmæli míns fyrrverandi samstarfsmanns hjá 365, Hans Steinars Bjarnasonar íþróttafréttamanns, í gær en mér sýnist að ekki hafi síður til tekist þar en hjá okkur fyrir réttu ári.

Eins varð fertugur í gær Andri Ægisson úr gamla Garðabæjarhópnum og var ég þar því miður fjarri góðu gamni en sé af registri á Facebook að veislan varð að minnsta kosti tilefni eins lögregluútkalls og er þeim gamla Patreksfjarðarmóra illa í ætt skotið ef hann nær ekki þeim árangri hið minnsta.

Athugasemdir

athugasemdir