Skírteini í hús, orkumál og lífið

bladamannapassiJæja, blaðamannapassi fyrir 2011 kom inn um lúguna fyrir helgi, glóðvolgur úr smiðju Blaðamannafélagsins í gamla landinu. Vonandi verður hann mér hvatning til að reyna að skrifa einhverja dellu ofan í íslenska fjölmiðla um það sem gerist fréttnæmt hér í norsku samfélagi á árinu. Maður þarf að halda sér í gírnum. Kannski er nóg að bulla hér á síðunni en sjáum altént hvað setur.

Á meðan hinn almenni Norðmaður reytir hár og skegg í bræði yfir hækkuðu rafmagnsverði kom hér inn um lúguna lægsti rafmagnsreikningur síðan í sumar, skitnar 810 krónur sem er lækkun úr um það bil 1.400 króna meðaltali síðustu mánaða (margfaldist með 20,12 til að fá íslenskt verð). Þetta með lúguna er reyndar haugalygi, Norðmenn nota ekki bréfalúgur. Hérna röltir maður út að götu og sækir póstinn sinn í póstkassann, mjög heimilislegt og skandinavískt allt saman.

Þessi lági reikningur er auðvitað gálgafrestur. Við vorum náttúrulega á Íslandi frá 20. desember til 4. janúar og ekkert í gangi hér nema ísskápur og þjófavarnakerfi á meðan. Svo kom beiðni um mælisaflestur einmitt rétt eftir að við komum til baka. Við erum reyndar mjög ódýr í rafmagni og þykir flestum furðu sæta að við náum að halda okkur langt undir 2.000 krónum á mánuði á meðan aðrir greiða allt að 5.000 króna rafmagnsreikning fyrir sambærilegt húsnæði. Þar kemur íslenskt hugvit auðvitað sterkt inn. Lausnin er sáraeinföld: Ég fer aldrei í sturtu. Heima hjá mér það er að segja. Síðan við fluttum í þetta húsnæði í sumar og rafmagn var ekki lengur innifalið í leigu hef ég aldrei farið í sturtu heima hjá mér, það er engin lygi. Ég þykist vita að margir sjái nú fyrir sér hryllilega atburðarás þar sem ég banka lævís upp á hjá nágrönnunum, sveipaður sloppi mínum, og hef létt spjall um daginn og veginn sem lýkur svo á þessum nótum: ‘En meðal annarra orða, Britt, ég heyrði að þið hjónin væruð með bestu sturtuna í hverfinu. Má ég nokkuð prófa hana?’ (MYND: Hið fræga slopphlaup mitt í póstkassann er orðið annálað vandamál hér í hverfinu. Þarna sný ég til baka frá póstkassa sem reyndist tómur þann daginn. Póstkassinn okkar sést þarna ofan við Volvo-inn, fyrir miðju í efri kassaröðinni.)
slopphlaup
Svo slæmt er það reyndar ekki. Ég fer auðvitað bara í sturtu á æfingum. Þær eru daglegt brauð og stundum tvisvar á dag. Frábær lausn. Upphitun vatns fyrir meðalsturtu er talin kosta á bilinu 30 – 60 norskar krónur, breytilegt þó eftir landshlutum og verðskrá rafmagnsseljenda. Hérna skiptist rafmagnsreikningurinn í tvennt, rafmagnið sjálft annars vegar og flutning á því, eða overføring, hins vegar. Þessir tveir hlutar eru gjarnan svipuð upphæð. Verðið á flutningnum getur verið mjög mismunandi og fer meðal annars eftir því hvort flutningsaðilinn er sá sami og selur rafmagnið. Allur rafmagnsbransinn hér er einkarekinn og kaupandinn velur sér raforkusala og flutningsaðila. Við erum hjá Lyse með hvort tveggja og erum nokkuð sátt. (MYND: Mesti rafmagnssparnaðurinn felst þó í kyndingu á gamla mátann. Eldstæðið í stofunni rauðglóandi. Ófá glösin hafa nú verið tæmd fyrir framan þennan skratta.)
arinn
Nokkur vandræðagangur varð með þetta þegar við vorum að panta allan pakkann hjá Lyse í ágúst. Þjónustufulltrúinn sem tók á móti okkur stóð á því eins og hundur á roði að hann yrði að gæta þess að mæla ekki með neinum flutningsaðila við okkur framar öðrum. Það mætti hann alls ekki að viðlögðum dauðadómi samkeppnisyfirvalda og síst af öllu mætti hann mæla með Lyse sjálfu fyrst við værum nú að tala við þá. Mér var ekki fullkomlega ljós alvara málsins og spurði í léttum tón hvort það væri ekki eina vitið að notfæra sér sama þjónustuaðila við sölu og flutning á rafmagni. Fulltrúinn, Thomas minnir mig, horfði steinþegjandi og sótrauður á mig og var greinilega tregt tungu að hræra. Skildi ég þá alvöru málsins. Þetta tókst þó allt að lokum en það var bara hálfur sigur því þá var eftir að velja milli þriggja áskriftarleiða raforkuflutninga. Rafmagnskaup eru því gríðarlegur frumskógur hér og til þess fallin að æra óstöðugan. Hafa enda fyrir löngu ært mig.

Athugasemdir

athugasemdir