Nýliðinn sunnudag voru 25 ár liðin síðan ég hóf störf hjá Efnaverksmiðjunni Sjöfn (þess vegna er ég svona) 10. maí 1990, nánar tiltekið á lagernum í Garðabæ sem stóð þar sem Hagkaup í Kauptúni stendur nú. Þetta var sumarvinna, fyrra sumar af tveimur áður en Ístak tók við mér fjögur sumur. (MYND: Fyrsti launaseðill minn frá SÍS, klárlega safngripur, lógó sambandsins efst til vinstri.)
Ég náði sem sagt þeim stórmerka áfanga í þessu lífi að starfa hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga sem stofnað var á Ysta-Felli í Þingeyjarsýslu 20. febrúar 1902 og dó drottni sínum síðla árs 1992 eftir að hafa verið eitt helsta viðskiptaveldi Íslands stóran hluta 20. aldarinnar. Á myndinni gefur að líta minn fyrsta launaseðil frá SÍS, dagsettan 15. júní 1990.
Þarna hef ég fengið útborgaðar 78.211 krónur fyrir „almenn verslunarstörf“, auðvitað með námsmannaskattkort upp á vasann svo Skattmann (sem nú situr á Bessastöðum) fékk ekki krónu. Þetta voru ágæt laun þótti 16 ára pjakki þá eftir að hafa síðustu fjögur sumur á undan verið í unglingavinnunni í Garðabæ en þar voru greiddar 54 krónur á tímann sumarið 1986 (á þann launaseðil til líka).
Sem aukabúgrein með starfinu hjá Sjöfn seldi ég landa (er ekki brotið örugglega fyrnt?) svo maður hélt sér alveg á floti þetta dásamlega sumar, náði a.m.k. að standa undir eigin drykkju og þess á milli var rifið í lóðin af krafti í Æfingastöðinni Engihjalla í Kópavoginum hjá engum öðrum en Óskari Sigurpálssyni kraftlyftingamanni og okkar fyrsta (held ég) ólympíufara í kraftlyftingum (Mexíkó 1968).
Ef ég rifja aðeins upp mannskapinn þarna á lagernum ríkti þar töluverð flóra. Ingvi Guðjónsson stýrði skútunni, hæglátur maður og alvarlegur en annað veifið gaus þó gamansemin upp í honum. Ég neytti á þessum tíma neftóbaksins Snuff 99 Medicated af miklum krafti og Ingvi var alveg sérstakur áhugamaður um hvernig ég gæti komið því sem hann taldi ótrúlegt magn af mentoltóbaki þessu upp í nefið á mér. Ingvi er látinn fyrir tæpum áratug sá ég einhvern tímann í Morgunblaðinu. (MYND: Einhver skólasystkin úr Menntaskólanum minnast líklega garðslöngubútsins góða sem ég saug Snuffið gegnum en sá er enn til. Fleiri, kennarar og nemendur, minnast án efa einnig tóbaksklútsins sem ég snýtti mér í með miklum látum og muldi jafnan úr á föstudögum.)
Verkstjóri á sjálfum lagernum var Raggi, Ragnar Jónsson, sem grunaður var um að vera bróðir Aðalsteins Jónssonar, þáverandi forstjóra Sjafnar, en ekki man ég til þess að það hafi beinlínis fengist staðfest nokkurn tímann. Raggi var fínn kall en okkur ungviðinu líkaði misvel sú árátta hans að vera sífellt að láta okkur gera eitthvað, sérstaklega ef rólegt var á lagernum. (Engu að síður komst ég nú upp með að lesa The Hitchhiker’s Guide to the Galaxy spjaldanna á milli í vinnutímanum annað hvort sumarið.)
Aðalmartröðin var þegar við lukum vikunni með því að sópa allt húsnæðið eftir hádegi á föstudögum undir vökulu auga Ragnars. Sú aðgerð hefði klárlega verið bönnuð nú á dögum þar sem svifryk á lagernum fór svo langt yfir heilsuverndarmörk að magnað telst að við séum flestir á lífi í dag. Reyndar er Ragnar sjálfur þó að öllum líkindum látinn, hann hefur verið kominn hátt á sextugsaldur þarna 1990 en maður veit auðvitað aldrei.
Þorsteinn Ólafsson, efnafræðingur og á þessum tíma þekktur markvörður í knattspyrnu, í Keflavík held ég, fylgdist með ástandi málningar og ýmissa rótsterkra hreinsiefna fyrir matvælaiðnað sem dreift var til verslana frá lagernum. Steini var alltaf fjallhress, mikill íþróttamaður og naut aðdáunar okkar pilta.
Útakstur til verslana annaðist Friðrik úr Kópavogi, svo mikill spaugari að í minningunni sagði hann ekki orð nema það væru brandarar, sem fær þó illa staðist þar sem hann stýrði því með harðri hendi í hvaða röð vörurnar fóru inn í bíl hjá honum og mátti maður þá hafa sig allan við á lyftaranum til að tryggja gleði Frikka. Af og til á föstudögum kom ég í hann korni af neftóbaki og þá streymdu úr honum tárin og öskrin gullu um lagerinn þveran.
Þarna störfuðu einnig Júlíus málarameistari, Sigvaldi Jónsson, nú Ástríðarson en líklega best þekktur sem Valli Dordingull í höfuð metal-þáttarins sem hann stjórnar á Rás 2, Sigurður Runólfsson, skólabróðir minn og vinur úr Garðabænum, Gestur Sigurðsson úr Hafnarfirði, Davíð Art Sigurðsson, þá söngvari en nú einkum myndlistamaður held ég, Gulli, síðar læknanemi og vonandi læknir núna fyrir löngu, systurnar Anna og Arna Sigurbergsdætur í afgreiðslunni þar sem einnig var ljósgeislinn hún Vilborg sem stórslasaðist í hörmulegu bílslysi um hvítasunnuna 1990 frekar en ’91 en komst á fætur og ekki eru mörg ár síðan ég hitti hana í Kringlunni.
Sumarið 1990 var gott sumar og einnig seinna sumarið mitt þarna á lagernum. Annars var nú ekki ætlunin að gera annað hér en flagga þessum launaseðli en minningarnar taka alltaf völdin…