Verslanir Krónunnar eru klósett vikunnar, þó einkum Krónan hér í Mosfellsbæ. Það er ekki einleikið hve oft verðmerkingar á hillum eru rangar og á kassanum reynist verðið svo allt að þriðjungi hærra. Þetta fékk ég að reyna á einhverri pastasósu sem merkt var með 96 krónum í hillu. Meðan ég gekk að kassanum jókst verðbólga á landinu greinilega hröðum skrefum því þar kostaði sama vara 134 krónur fimm mínútum eftir að ég hafði tekið hana úr hillunni.
Þetta var um kvöldmatarleytið og Úlfur Eggertsson verslunarstjóri ekki við. Ég þekki hann og hef tekið við hann viðtal, til dæmis þegar rafmagnið fór af nær öllum Mosfellsbæ í fyrrasumar. Ég held að Úlfur sé sómamaður, ég upplifði hann þannig. Á staðnum var hins vegar stúlka sem sennilega er aðstoðarverslunarstjóri og óhætt að segja að hún taki hlutverk sitt ekki mjög alvarlega. Ég knúði dyra á sjóðsherberginu og sagði ‘Afsakaðu, má ég bera eitt undir þig?’
Viðbrögðin voru mesta ömurð íslenskrar verslunarsögu. ‘Hvað?’ sagði aðstoðarverslunarstjórinn ungi og leit ekki einu sinni á mig heldur starði sem dáleidd á tölvuskjá. Ég ákvað að sóa ekki tíma mínum frekar heldur fór til baka á kassann og greiddi 134 krónur fyrir sósuna sem kostaði 96 krónur í hillunni. Starfsfólk á borð við þessa manneskju verðskuldar ekki einu sinni kvartanir.
Þetta er ekki í fyrsta og ekki í annað skiptið sem ég upplifi það hjá Krónunni að hilluverð sé eitt og kassaverð annað. Viðbrögðin eru yfirleitt þau að þetta séu greinilega bara mistök við verðmerkingar. Merkilegt að starfsfólkið geri aldrei þau mistök að verðleggja of hátt á hillunni og maður borgi minna við kassann. Ég bíð spenntur eftir að lenda í því. Þetta hefur gert það að verkum að ég fer ekki í Krónuna í Mosfellsbæ nema í algjörum neyðartilvikum.
Þarna eru lélegir viðskiptahættir og treyst á að viðskiptavinurinn hafi ekki nennu í sér til að fara yfir kassakvittunina eða leggja á minnið hvert hilluverðið var. Lögum samkvæmt ræður hilluverð þó og atlisteinn.is hvetur neytendur til að gera samanburð á þessu tvennu. Ekki bara í Krónunni heldur öllum verslunum. Þeir dagar eiga að vera liðnir að neytendur séu fífl.