Síminn – sennilega dýrastur

sminnJæja, ég steig skrefið loksins. Eftir viðskipti við Símann (áður Póst & síma og þar á eftir Landssímann) frá því í nóvember 1996 flutti ég viðskipti mín yfir til Tals í síðustu viku. Hvers vegna? Jú, þegar sex prósenta gjaldskrárhækkun Símans 1. mars síðastliðinn hækkaði símareikninginn minn úr 20.000 krónum í 35.000 (einn GSM-sími, heimasími og nettenging) ákvað ég að taka the good old hard look in the mirror og segja við sjálfan mig: Hingað og ekki lengra. (MYND: Ekkert gæti lýst Símanum betur.)

Síminn er mesta okurbúlla landsins og ljóst að þar á bæ er mönnum ekkert heilagt þegar kemur að gjaldlagningu. Nema kannski það verði heilagt þegar þeir fá faxið frá Tali um að ástkært fórnarlamb þeirra til 13 ára hafi ákveðið að hætta að láta taka sig ósmurt. Þá er allt í einu hringt daglega úr 800-7000 (þjónustuveri Símans) og spurt hvort maður vilji nú ekki endurskoða þessa dramatísku ákvörðun. Svarið er einfalt: Nei, ég vil ekki endurskoða hana en hins vegar hefði ég átt að taka hana mun fyrr.

Hér veður hins vegar uppi minn ævaforni og mesti veikleiki sem er að skipta ávallt við sömu fyrirtækin sama hvað þau rukka mig. Þangað til núna þegar Síminn heldur því fram að ég hafi átt mörg hundruð símtöl í heimasímann þegar hann er hins vegar aldrei snertur og sex prósenta hækkun er næstum hundrað prósent á mínum reikningi.

Það er engin furða að ríkið hafi selt Símann, hann er verri fjárfesting en Icesave. Og eins og ég hef ritað áður á þetta vefsetur er það hverju orði sannara sem Sigmar Vilhjálmsson, fyrrum markaðsstjóri Tals, ritaði í Morgunblaðið í vetur: Meðal-Íslendingur skilur ekki símareikninginn sinn. Það er alveg ljóst að svo er, ég skil álíka mikið í mínum símareikningi og væri hann ritaður á papírus af Forn-Súmerum. atlisteinn.is skorar hér með á alla þá lesendur sína, sem skipta við Símann og skilja ekki dulmálið sem berst mánaðarlega í bláu gluggaumslagi, að skipta hið fyrsta um þjónustuaðila. Ekki gera ekki neitt, eins og frægt rukkunarfyrirtæki gerir að einkunnarorðum sínum.

Athugasemdir

athugasemdir