Mikill snillingur er Gunnar V. Andrésson Fréttablaðsljósmyndari. Forsíðumynd hans á blaðinu í dag er flottasta vísun í Síðustu kvöldmáltíð da Vinci sem ég hef nokkurn tímann séð. Takið eftir því hvernig Tryggvi Gunnarsson og Vilhjálmur Árnason mynda sams konar afstöðu og Jóhannes skírari og Jesús á málverkinu. Það læðist að manni að Gunnar hafi beðið nefndina að stilla sér upp með þetta fyrir augum. Sennilega ekki þó. (MYND: Síðasti blaðamannafundurinn. Gunnar V. Andrésson/Fréttablaðið (ég tel mig alla vega hafa séð nauðasköllótt höfuð hans á ferð í útsendingu RÚV í gær).)
Bæði augnablikin eru viss örlagastund, síðasta kvöldmáltíð Jesú með lærisveinum sínum og blaðamannafundur Páls Hreinssonar og hans lærisveina sem var þeirra fyrsti og síðasti blaðamannafundur þannig að þetta er allt nátengt. Ég er eiginlega að hugsa um að leggja frá mér Fjölmiðlarétt Páls Sigurðssonar, sem er bókin á skrifborðinu núna, og grípa mér biblíu í hönd. Með réttri táknfræði hlýt ég að geta fundið spádóma um bankahrunið og rannsóknarnefnd Alþingis í Opinberunarbók Jóhannesar þar sem höfundurinn lýsir heimsendi rétt eins og hann sé að drekka vatn! (MYND: Síðasta kvöldmáltíðin. Leonardo da Vinci (sér einhver svip?).)