Mikið er ég feginn að vera fluttur frá Íslandi eftir að hafa hlustað á frétt RÚV í kvöld um það sem Steingrímur J. kallar sértæka tekjuöflun ríkissjóðs, með öðrum orðum skattahækkanir. Næstu tvö ár mun ég, sem nýbúi í Noregi, greiða 20 prósenta tekjuskatt til að auðvelda mér aðlögun að þjóðfélaginu. Staðgreiðsluskattur er 36 prósent en mismunurinn fæst endurgreiddur við álagningu í júní ár hvert.
Ég hafði töluvert álit á Steingrími þegar hann var í stjórnarandstöðu en gamli jarðfræðingurinn er á villigötum núna. Síðasti fjármálaráðherra var dýralæknir. Ég velti því alvarlega fyrir mér að sækja um stöðuna næst þegar hún losnar, sem verður væntanlega brátt. Íslenskufræðingur myndi varla gera verri hluti en hinir tveir.
Eftir að ég fékk nýjasta DV sent hingað út sé ég að ég nauðaþekkti Hannes Þór sem var myrtur í Hafnarfirðinum. Hann var fastagestur á Gauknum þegar ég var í dyrunum þar í fyrra skiptið, mars til október 1995. Mjög viðkunnanlegur piltur, ég get tekið undir það með viðmælendum DV. Íslenskar morðrannsóknir sem teygja anga sína til Litháen eru slæmar fréttir. Þá finnst mér nú lítið mál í samanburðinum að Einar Ingi og félagar séu loksins að fá að stofna Hells Angels-deild á Íslandi. Dómsmálaráðherra fer að mínu viti offari í sókn á hendur þeim piltum. Mér er það til efs að Einar og vinir hans aki um rænandi og myrðandi eftir að þeir fá að skreyta sig með merkjum Vítisenglanna.
Ég var einmitt að spjalla við félaga í Hells Angels hér í Noregi um helgina en sá liggur slasaður á háskólasjúkrahúsinu eftir vélhjólaslys. Hann er mikill áhugamaður um húðflúrmenningu á Íslandi og sleppti mér ekki fyrr en ég hafði sagt honum allt um Jón Pál Halldórsson og almennt um íslenska flúrara en sem kunnugt er hefur enginn annar en Jón Páll fengið að stinga í mig nál, fyrst 15. júlí 1995 á gamla JP Tattoo niðri á torgi. Sú mynd átti 15 ára afmæli nú um daginn.