Saurþing

kaupthingÞað er ömurlegt að horfa upp á Kaupþing fela skítaslóðina eftir sig með því að knýja fram lögbann við flutningi frétta sem eiga fullkomið erindi til íslensks almennings. Jafn-ánægjulegt er þó að sjá síðuna wikileaks.org birta gögnin sem þeir Kaupþingsmenn eru svo feimnir við. Finnur bankastjóri lætur auðvitað ekki ná í sig, fáránlegt útspil hjá honum sem sviptir hann öllu trausti þjóðarinnar á einu kvöldi. Gott hjá þér, Finnur.

atlisteinn.is lýsir yfir stuðningi við síðuna wikileaks og biður hana að þrífast sem lengst. Með þessu fellur Kaupþing niður á sama plan og banki Björgólfsfeðga og Sigurjóns Árnasonar, bankinn sem eyðilagði íslensku þjóðina til frambúðar og Sigurjón kallaði tæra snilld. Þau ummæli dæma sig sjálf. Eins fagnar atlisteinn.is fréttum af því að Háskólinn í Reykjavík sá sóma sinn í því að losa sig við Sigurjón og leyfa honum ekki lengur að kenna við skólann. Maður sem ætti að vera kominn í ævilangt fangelsi fyrir landráð á ekki að fá að kenna ungu fólki fræði sín, ef fræði skyldi kalla. Flestar þjóðir væru búnar að koma svona fólki bak við lás og slá en við Íslendingar erum svo frjálslyndir og fljótir að gleyma.

Annars nenni ég ekki að vera að pirra mig á Björgólfsfeðgum og Sigurjóni, vonandi eru þeir búnir að koma sér upp svo illu karma að þeir líti aldrei aftur glaðan dag. Á föstudaginn hófst mánaðarlangt sumarfrí mitt og ég ætla virkilega að njóta þess, keyra hringinn, fara á Fiskidaginn mikla á Dalvík og hugsa alls ekki um Björgólfsfíflin og Sigurjón. Veðrið lofar líka góðu og hvers vegna ætti ég að vera að pirra mig á þessum ösnum? Eftir innan við ár verð ég fluttur héðan af landi brott og þá má Sigurjón Árnason gera nákvæmlega það sem hann vill. Settu Ísland endilega á hausinn aftur, Sigurjón. Vertu bara ekkert að láta sjá þig of mikið á almannafæri.

Athugasemdir

athugasemdir