SAS = Skuldum Alltaf Skrilljón

sasSAS-gjaldþrotið, sem naumlega var bjargað fyrir horn í dag, er heitasta fréttaefni í Skandinavíu um þessar mundir. Ég fullyrði að forsíður allra norsku blaðanna (fyrir utan einhver smábæjarblöð) voru undirlagðar af málinu og NRK Rogaland, sem ég hlusta á í bílnum, ræddi við hvern álitsgjafann á fætur öðrum í dag um örlög og hugsanlega framtíð félagsins. Sá sem mest vit virtist hafa á þessu, blaðamaður á Stavanger Aftenblad og sérfræðingur í skandinavískum flugsamgöngum, sagði að eftir samningana við stéttarfélögin átta í dag ætti SAS að minnsta kosti þrjú ár eftir ólifað.

Ég ætla rétt að vona að blessaður maðurinn reynist sannspár þar sem við hjónin erum á leið í heimsókn til Íslands í vikunni, hún á morgun og ég á fimmtudagskvöld. Bæði erum við háð SAS um flutning héðan til millilendingarvalla en Rósa fer um Ósló og ég Kaupmannahöfn (Icelandair felldi niður fast áætlunarflug sitt frá Stavanger til Íslands á morgun þegar í ljós kom að áhöfnin yrði sennilega ein á ferð í þeirri vél). (MYND: Norsk síðdegisumferð. Rannsókn sem var í fréttum hér leiðir í ljós að verstu umferðarteppur Evrópu eru í Ósló og Stavanger. Nógur tími til að hlusta á fréttir af gjaldþroti SAS á NRK Rogaland.)umfer

Við nöguðum okkur aðeins í ýmsa útlimi áður en málið komst í var í dag. Rósa hefði sennilega marið að taka lestina héðan til Óslóar og mæta í flug þar en ég hefði sennilega lent í meira veseni með að redda mér til Kaupmannahafnar fyrir klukkan 20:10 á fimmtudaginn eftir vinnudag til 16:00 hér. Norwegian hefði kannski getað bjargað mér. Þetta virðist alla vega ætla að sleppa og fram undan eru nokkrir dagar með fjölskyldunum, á KFC og að sjálfsögðu jólahlaðborð Argentínu steikhúss á laugardag sem er ein af okkar æðstu upplifunum í lífinu. Hingað á ný með Icelandair á sunnudag (verði því ekki aflýst líka), sennilega beint af Ölstofu Kormáks og Skjaldar eins og í sumar. Það var fjör.

Gærdagurinn var svakalegur. Ótilkvaddur vaknaði ég á slaginu 08:49 þrátt fyrir harðar fyrirætlanir um svefn til hádegis, 12 tíma yfirvinnu á laugardag og ókjör af hvítvíni og vodka eftir hana. Þar sem ég náði ekki að heimsækja City Gym vegna vinnu var laugardagsæfingin tekin í gær og var ég mættur á svæðið stundvíslega klukkan 11:11. Í miðri upphitun rann það upp fyrir mér að á tæplega 25 ára ferli í lóðaskaki er þetta sennilega í fyrsta skipti á ævinni sem ég er staddur í líkamsræktarstöð fyrir hádegi á sunnudegi. Mér varð ekki um sel svo vægt sé til orða tekið. Ef fylgifiskar þess að verða miðaldra eru að vakna um miðja nótt á sunnudegi eftir dúndurdrykkju og fara beint í ræktina vil ég helst verða barn aftur. Strax.

Þetta var ekki eini stórviðburður dagsins, öðru nær. Eftir þessa tímamótaæfingu fórum við hjónin saman í klippingu sem hefur aldrei gerst áður og mun sennilega aldrei gerast aftur. Það var Halla, vinkona Rósu, sem vann verkið en hún býr hér úti í Mosterøy, mikilli en pöbblausri náttúruperlu. Tilfinningin var kynngimögnuð enda um aðra klippingu mína á ellefu ára tímabili að ræða þar sem ég hef ekki verið mikið að burðast um með hár á höfðinu það sem af er 21. öldinni.

Til að halda upp á öll þessi tímamót skelltum við frosinni Grandiosa-pizzu í ofninn (glettilega góðar þrátt fyrir norskan uppruna sinn) og drifum okkur svo á Taken 2 með Liam Neeson í lúxussalnum í SF Kino hérna niðri í bæ. Önnur eða þriðja bíóferð ársins, þetta er engin frammistaða.

Vaknaði feitur í morgun eftir ólifnaðinn.

Athugasemdir

athugasemdir