Eftir rúmt ár hérna á Overlege Cappelensgate létum við þann gamla draum rætast að standsetja skrifstofuna okkar svokölluðu, sameiginlega tölvu- og margmiðlunaraðstöðu í herbergi uppi á annarri hæð sem hefur, þetta rúma ár sem við höfum búið hér, þjónað hlutverki ruslageymslu. Forsenda þess að þetta mikla skref yrði stigið var helför í IKEA til kaupa á tveimur skrifstofustólum og litlu skrifborði þar sem einungis eitt var til á heimilinu fram að þessu, ævafornt. (MYND: Tekið upp úr kössunum. Samsetning fram undan.)
Við vorum löngu búin að velja stólana og borðið í IKEA, mjög þægilega stóla sem heita Verner (flest í IKEA heitir einhverjum mannsnöfnum) og lítið borð sem heitir Leksvik. Þetta var tiltölulega vel sloppið fjárhagslega, 795 krónur stykkið af stólunum og borðið á 995 krónur, auðvitað er allt í IKEA tiltölulega vel sloppið fjárhagslega enda eru þetta oft ekki spennandi húsgögn. Reyndar þoli ég ekki IKEA, þetta er einhvers konar sænskur ofstækistrúflokkur sem hefur það markmið að hver einasta mubla á skandinavískum heimilum komi frá þeim. Ég vísa bara á vörulistann frá þeim og myndir í honum. Hvers konar fólk gæti búið á heimili með ÖLLU frá IKEA?? Ekki ég. (MYND: Rósa hjólar í stólana sem gengu vonum framar (þökk sé öflugri ráðgjöf frá mér). Borðið er enn í frumeindum þegar þetta er skrifað en ég lofa myndum af öllum herlegheitunum í næsta pistli.)
Einstaka hlutir frá þeim eru samt allt í lagi og ég verð að játa að Verner-stólarnir eru bæði smekklegir í útliti, þægilegir og ódýrir. Merkilegt að þessir eiginleikar fari saman í einu húsgagni. Svo er samsetningin auðvitað martröð út af fyrir sig. Hún fór þannig fram að Rósa spreytti sig á þessu á meðan ég sötraði hvítvín á kantinum og veitti henni ýmsa gagnlega ráðgjöf. Það virkaði greinilega því þessi pistill er fyrsti pistillinn sem skrifaður er í Verner-stól frá IKEA við gamla skrifborðið mitt. Lýkur þar með þeim ósið að sitja lon og don við tölvuna niðri í stofu. Helst vil ég engin rafmagnstæki hafa í stofunni önnur en hljómflutningstæki. Stofan er staður bóka og brennivíns í mínum huga og þannig held ég mín heimili. (MYND: Ég himinsæll í Verner-stólnum frá IKEA í nýju tölvuaðstöðunni. Þetta er allt annað líf.)
Ekki er ofangreint einu nýjungarnar hér í húsinu. Hún Lena, leigusalinn okkar, hafði samband í september og lét okkur vita af því að hún hefði fjárfest í varmadælu sem hún ætlaði að láta setja upp hjá okkur. Það var svo gert 5. október síðastliðinn. Þetta fyrirbæri, varmepumpe á norsku, er algengasta aðferð Norðmanna til húshitunar auk gamla arineldsins. Í raun er þetta nákvæmlega sama fyrirbæri og loftkæling á hótelherbergjum við Miðjarðarhafið nema að hérna er þetta stillt á hita í stað kulda. Það byltingarkenndasta við dæluna er svo að hún notar mjög lítið rafmagn miðað við rafmagnsofna og lækkar rafmagnsreikninginn töluvert á meðalheimili. Ég hlakka mikið til að sjá hvernig þetta kemur út á næsta rafmagnsreikningi en við höfum lagt okkur í líma við rafmagnssparnað hér á heimilinu og eins og ég hef skrifað um hér áður fer ég til dæmis aldrei í sturtu heima hjá mér.
Þetta var rausnarlegt af Lenu en varmadælan kostar hvítuna úr augunum, um 30.000 kall norskar (rúmar 600.000 íslenskar). Reyndar áttum við það alveg skilið, búin að vera þvílíkir fyrirmyndarleigjendur og höfum greitt leiguna þremur dögum fyrir umsaminn gjalddaga alveg frá upphafi. Í raun ætti hún að kaupa handa okkur brennivín líka. (MYNDIR: Varmadælan, efri mynd sýnir þann hluta hennar sem er utan á húsinu, þetta er þokkalegt stykki. Neðri myndin sýnir það sem er inni í stofu hjá okkur, aðeins nettara sem betur fer.)
Talandi um húsnæðismál þá get ég ljóstrað því upp hér að við höfum ákveðið að búsetja okkur í Sandnes til frambúðar eftir að við klárum leigusamninginn hér í júlí 2013. Þar ætlum við að koma okkur fyrir í svokölluðu borettslag sem er sama fyrirkomulag og Búseti á Íslandi hefur haldið úti. Maður gerist félagi í fyrirtækinu, ef svo má segja, fær úthlutað félaganúmeri og sækir svo um húsnæði eftir því sem það losnar og er auglýst. Svo býr maður þarna og greiðir í raun niður lánið á húsnæðinu auk þess að greiða fasta upphæð í sameiginlegan kostnað með nágrönnunum sem fer í húsvörð, garðslátt og almennt viðhald, frábært fyrir mig sem nenni helst ekki að gera allt of mikið heima hjá mér. Það er miklu sniðugra að borga öðrum fyrir að gera það. Þá uppskera aðrir tekjur og ég hef meiri tíma til að drekka brennivín og slaka á heima þegar ég er ekki í vinnunni. Fullkomið líf þannig séð. Svo lýkur þessari fögru sögu með því að maður á með reglulegu millibili forkaupsrétt að íbúðinni sem maður býr í en þarf ekki að nýta hann fyrr en manni sýnist. Sniðugt.
Okkur finnst Sandnes mjög flottur bær. Hann er eins konar Kópavogur við hlið Stavanger, rúmlega 60.000 íbúar, flottur miðbær með göngugötu og alls konar börum, þar á meðal hinum frábæra Madame Åses Pub sem við duttum niður á fyrir hreina heppni í hjólreiðatúr í fyrrasumar, og gríðarlegri náttúrufegurð. Gandsfjörðurinn, sem hvort tveggja Stavanger og Sandnes standa við, endar til dæmis í miðbæ Sandnes. Ég er ekkert sérstakur í landslagslýsingum en skora á fólk að skoða þetta svæði á kortavef Google í Satellite-ham. Þessi hlekkur virkar vonandi.
Annars er þannig séð tíðindalítið. Lífið er vinna, svefn, líkamsrækt og brennivín eins og er. Ég sagði frá því um daginn að ég hóf á ný að æfa karate eftir átta mánuði í taekwondo og það hefur reynst mikið gæfuskref. Ég hef reyndar aðeins komist á tvær æfingar enn sem komið er vegna yfirvinnu en þær hafa gefið mér mikið. Hefðbundið (í merkingunni traditional) shotokan karate er ákaflega hressandi íþrótt og ég datt beint inn í gamla gírinn strax á fyrstu æfingu, eftir fjögurra ára fjarveru. Nú hef ég ákveðið að setja stefnuna á að taka 2. dan áður en ég verð fertugur 2014. Það gæti hugsanlega tekist en gerir þó ekkert annað en að lengja listann yfir hluti sem ég ætla að gera fyrir fertugt. Sá listi er við það að verða óyfirstíganlegur nú þegar, þremur árum fyrir atburðinn. Sjáum hvað setur…