Reykingar, drykkja og 26. maí

ReykurFyrirtækiseigandi nokkur hérna uppi í Ålgård gaf það út í síðustu viku að hann hygðist gefa reyklausum starfsmönnum sínum eina viku aukalega í sumarfrí, hafði reiknað það út að reykingafólk (á hans vinnustað að minnsta kosti) notaði samtals þrjár vikur á ári af vinnutímanum í reykingapásur og taldi óhætt að verðlauna þá sem ekki reyktu með aukafríi. Þetta varð tilefni lítillar fréttar í Aftenposten og hugsanlega einhverjum fleiri fjölmiðlum.

Örfáum dögum síðar er málið orðið að pólitísku þrætuepli, stríðandi fylkingar hnakkrífast í fjölmiðlum og sennilega er fátt annað rætt í reykingapásum á vinnustöðum. LO (ASÍ Noregs) rís upp á afturlappirnar og fullyrðir að verið sé að troða á réttindum reykingafólks. Er verið að því? Eins og framkvæmdastjórinn góði í Ålgård bendir á er hann ekki að taka nein réttindi af reykingafólkinu sínu, það heldur óskertu sumarfríi og öllum öðrum réttindum. Hann er hins vegar að umbuna þeim sem ekki reykja. LO kallar þetta brot á kjarasamningum en á í erfiðleikum með að benda á hvaða ákvæði eru brotin. Fulltrúi samtakanna heimtar að fyrirtækið beini kröftum sínum heldur að því að hjálpa starfsfólkinu að hætta að reykja. Er þetta ekki ágætisleið til þess?

Stormar geisa í fleiri vatnsglösum. Vínveitingaeftirlitið í Stavanger telur nú að íbúar borgarinnar neyti óþarflega mikils áfengis og séu farnir að vera til vandræða meira en venjulega af þessum sökum. Hefur eftirlitið því sent út boð um að nú skuli framfylgja út í ystu æsar banni við áfengisauglýsingum á almannafæri í samræmi við áfengislöggjöf frá 1989 (sem er nánast copy-paste af konungstilskipun frá 1757 þar sem almennt er mælst til þess að fólk sé ekki meira og minna dauðadrukkið). (MYND: Fyrsti dagurinn í Noregi, 11. maí 2010. Borðin á horninu fremst á myndinni tilheyra Dickens./Elías Kristján Elíasson)Dickens

Þessi nýi ferskleiki yfirvalda felur meðal annars í sér að engir hlutir með áletruðum áfengisvörumerkjum mega vera sýnilegir á öldurhúsum borgarinnar sem nú þurfa að leggjast í þá vinnu að skipta út um það bil 50.000 glasamottum auk þess að rífa niður allar veggskreytingar sem bera einhver merki áfengisframleiðenda. Fyrir gamalgróin vínveitingahús á borð við Dickens í miðbæ Stavanger (þar sem ég stóð einu sinni sem dyravörður) táknar þetta að nánast þurfi að rífa sjálft húsið til að þóknast eftirlitsaðilanum. Eigandi Dickens harmar þetta með blæstri og soghljóðum í spjalli við norska ríkisútvarpið NRK í morgun og grætur þau örlög sín að þurfa að taka niður dót sem sumt hvert hefur hangið uppi á vegg hjá honum í 40 ár. Verður fróðlegt að sjá hvort mikil bindindisvakning verði meðal borgarbúa eftir þær breytingar…

Í dag er 26. maí sem mér hefur alltaf fundist stórmerkilegur dagur í sögu Íslands. Jónas skáld Hallgrímsson andaðist í kóngsins Kaupmannahöfn þennan dag árið 1845, Íslendingar skiptu yfir í hægri umferð 1968 og Guðmundur Kjærnested, skipherra á Ægi, skaut á breska togarann Everton norðvestur af Grímsey í æsispennandi (en mjög kurteislegri) viðureign í þriðja þorskastríðinu árið 1973.

Athugasemdir

athugasemdir