(Í dag er borinn til grafar Regin Freyr Mogensen og birtist greinin hér að neðan í Morgunblaði dagsins, þó stytt niður í 3.000 slög í samræmi við reglur blaðsins um lengd minningargreina. Hér birtist óstytt útgáfa þótt ekki muni mjög miklu á lengd. Ég þakka góðri fyrrverandi samstarfskonu á Morgunblaðinu fyrir að gæta þess vandlega fyrir okkur undirritaða að greinin birtist sjálfan útfarardaginn og eins þakka ég Söru Lind Þórðardóttur fyrir að láta mér í té þær góðu myndir sem ég legg hér með.)
Námsárum lýkur, menn eldast, fjölskyldur stofnast, atvinnulífið tekur sinn toll. Sá tími þegar vinir hittust daglega í skóla og brölluðu saman allar helgar hverfur hratt og örugglega inn í hina örlítið þyngri tilveru saltsins í grautinn og daglegrar rútínu fullorðinsáranna. Eðlilegt, sjálfsagt og gefandi ferli, lífið verður öðruvísi.
Brátt verður þó fátt mikilvægara en að reyna að finna eina og eina stund þegar allir í gamla hópnum komast eitt kvöld eða eitt síðdegi frá vígvelli daglegs lífs og geta átt saman nokkra klukkutíma við að rifja upp það gamla, segja frá því nýja eða bara fara yfir stöðuna eins og það er jafnan kallað í Drykkjufélaginu Sti sem stofnað var með þetta fyrir augum árið 2001.
Sti er hópur sem kynntist að mestu í háskólanámi á tíunda áratugnum þótt vinskapur einhverra næði lengra aftur. Regin Freyr Mogensen tilheyrði þessum hópi ásamt undirrituðum og Hlyni Konráðssyni. Hlynur var kallaður frá okkur árið 2007 og nú hefur Regin einnig tekið skrefið yfir í það sem tekur við þegar þessum heimi sleppir. Hvorir tveggju kvöddu fyrr en vonir okkar stóðu til en “Hver má þýða heilög ragna ráð?” orti séra Matthías Jochumsson.
Líkt og áður lítum við fram á veginn, höldum hópinn eins og mögulegt er og rifjum upp allt það jákvæða og skemmtilega en þar er af nógu að taka þegar Regin er annars vegar, hans leiftrandi kímnigáfa, góðlátlega glettni í garð náungans og þessi einstaka nærvera sem alltaf fylgdi honum…þegar hann lét sjá sig það er.
Reynt var að halda samkomur í Sti ársfjórðungslega meðan allir bjuggu á Íslandi. Ekki var áhlaupaverk að finna tíma sem hentaði félagsmönnum jafnt en small þó yfirleitt að lokum. Regin átti þó jafnan skrópmetið og bar við ýmsum önnum sem aðrir félagsmenn fundu að jafnaði léttvægar. Þegar félaginu voru sett sérstök lög sumarið 2006 var þar laumað inn hinni umdeildu 6. grein sem leynt og ljóst var sett Regin til höfuðs þótt enginn okkar vildi beinlínis gangast við því. Hljómaði hún svo:
“6. gr.
Félagsmaður skal að forfallalausu sækja samkomur í Sti. Vanræki félagsmaður ítrekað að sækja samkomur án þess að gild ástæða liggi að baki fjarvistum hans eða hann lætur sér sannanlega í léttu rúmi liggja hvort samkomur eru sóttar af hans hálfu eður ei er félaginu heimilt að veita honum aðvörun telji meirihluti félagsmanna hinn fjarverandi ekki hafa fært fram viðhlítandi skýringar á fjarveru sinni.
Tvær eða fleiri aðvaranir geta orðið grundvöllur brottvísunar félagsmanns úr Sti, tímabundið eða til langframa.
Ávallt skal gefa félagsmanni færi á að bæta ráð sitt áður en ákvörðun er tekin um viðurlög þau er greinir í 2. mgr.”
Ljóst má vera að hópnum hafi þótt mikið til viss einstaklings koma hafi verið brugðið á slíkt örþrifaráð að binda nærveru hans í lög. Boðskapurinn virðist þó hafa síast inn því Regin tók sig til og hélt meira að segja eina samkomu á heimili sínu í Trönuhjallanum og hlaust af hin besta skemmtan. Eins og alltaf reyndar.
Við félagarnir í Sti kveðjum Regin Frey Mogensen, einstakling sem var svo eftirminnilegur, óútreiknanlegur og sérstakur að það er varla nokkur leið að koma því til skila í minningargrein. Við færum fjölskyldu hans innilegar kveðjur á ögurstundu og munum halda merkjum rauðhærða riddarans á lofti í framtíðarsamkomum á meðan moldir og menn lifa.
Drykkjufélagið Sti
Atli, Alli, Palli og Gústi