Raunveruleikans kalda sturta

heimkomaLendingin með flugi SAS númer SK1876 á flugvellinum í Sola klukkan 21:55 í gærkvöldi eftir 24 daga af áti, drykkju, svefni og sólböðum var hörð svo ekki sé fastar að orði kveðið. (MYND: Við heimkomuna. Eins og sést var kæruleysið algjört í fríinu. Til hvers að raka sig þegar maður getur bara drukkið í staðinn?!?)

Eftir 15 daga á Íslandi og átta og hálfan í Amsterdam, þar sem verkefnin voru yfirleitt ekki flóknari en að velja veitingahús og panta næsta glas, beið kaffibrúnn vinnudagur klukkan 0700 í morgun, milljón tölvupóstar, löng skýrsla um allt sem hefði gengið á í vinnunni síðustu þrjár vikur, gleymd lykilorð og meira að segja búið að reka einn af undirmönnum mínum.

Landið var svona aðeins farið að rísa um hádegisbil enda sem betur fer sól og blíða í Stavanger í dag en ég er enn að venjast því að hafa kaffi í drykkjarílátinu í staðinn fyrir gin og tónik.
dam sq
Tveggja klukkustunda millilending á Kastrup á leið frá Amsterdam í gær reyndist kærkominn stuðpúði til að kaldstarta norskunni eftir þriggja vikna samskipti á íslensku, ensku og hollensku (ég get orðið bjargað mér á börum og veitingahúsum á því síðasttalda) og eftir fyrstu fimm tímana í vinnunni í morgun var eins og ég hefði aldrei brugðið mér af bæ. (MYND: Dæmigerð stemmning á Dam Square í Amsterdam. Fleiri myndir og frásögn frá þessari yndislegu Sódómu norðursins næstu daga.)

Að mæta Norðmönnum á ný eftir rúma viku í hollenskri stemmningu er eins og að ganga í munkaklaustur undir reglu karþúsíana…eða bara eins og að ganga á vegg.

Búast má við einhverjum ferðapistlum hér næstu daga í bland við almennt efni um það sem er að gerast í lífinu. Þetta verður hressandi, næsti rauði dagur í Noregi fyrir utan sunnudaga er annar í jólum!

Athugasemdir

athugasemdir