Rauðhærði riddarinn, Eurovision og lífið

europartyÉg var nánast meðvitundarlaus af vanþóknun og hneykslun eftir 19. sætið hjá Heru þegar ég dróst heim í nótt og tengdi mig við íslenskar kosningavökur gegnum lýðnetið. Brúnin lyftist þó örlítið þegar í ljós kom að Gnarr og Besti flokkurinn höfðu algjörlega fyrirhafnarlaust raðað sex manns inn í stjórn Reykjavíkurborgar. Þökk sé skynsemi og reiði íslenskra kjósenda og eins þakka ég Belgíu fyrir að gefa okkur átta stig sem var okkar hæsta stigagjöf í allri söngvakeppninni. Ég er tiltölulega feginn að við fundum hvergi íslenska fána í gær, undir lokin var ég farinn að segja fólki að ég héti Inga og væri frá Svíþjóð. Þetta var ömurlegt. (MYND: Eurovision-partýið á meðan allt lék í lyndi. Svo tók kaldhæðni örlaganna við.)

Við vorum eitthvað að vandræðast með að finna bar sem sýndi beint frá Eurovision og vörpuðum öndinni léttar þegar við sáum kranabíl hengja gríðarstóran skjá upp við endann á Skagen, aðalgötunni í miðbænum. Við töldum því strax að um lélegt og síðbúið aprílgabb væri að ræða þegar okkur var sagt að skjárinn væri alls ekki fyrir Eurovision heldur einhverja hjólreiðakeppni Stavanger sykkelklubb sem var í dag, sunnudag. Við hlógum bara að þessu rugli.
skjar
Tvær grímur tóku hins vegar að renna á okkur þegar við fréttum símleiðis frá Íslandi að Bretar væru komnir á svið, tólfta lag keppninnar, en skjárinn góði hékk dimmur og svartur yfir miðbænum. Bitur sannleikurinn rann þá upp fyrir okkur og við hófum örvæntingarfulla leit að bar með sjónvarpi. Hann fannst fljótlega og reyndumst við Rósa vera nálægt því helmingur áhorfenda. Við horfðum grátandi og full (þjóðerniskenndar) á Heru syngja sigurlagið sem svo endaði í 19. sæti af 25 mögulegum. Ég horfi aldrei á Eurovision aftur, þetta var stærra flopp en Páll Óskar og hans hinsti dans 1997. (MYND: Meintur Eurovision-skjár, einn stærsti misskilningur síðari ára.)

Á morgun hefst þátttaka okkar á vinnumarkaði á ný eftir samanlagt 15 mánaða atvinnuleysi. Við getum ekki beðið. Gerum það samt.

Athugasemdir

athugasemdir